150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[13:52]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta sem snerta vistvæn ökutæki á þskj. 741. Með frumvarpinu eru lagðar til nýjar tímabundnar skattaívilnanir vegna vistvænna bifreiða og nýorku- og hreinorkubifreiða, auk þess sem lagðar eru til breytingar á þeim ívilnunum sem þegar eru í gildi vegna innflutnings og sölu á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum. Þá eru nýjar tímabundnar skattaívilnanir jafnframt lagðar til fyrir rafmagns- og vetnisbifhjól, létt bifhjól sem ganga fyrir rafmagni og reiðhjól.

Ég vitna til nefndarálitsins en tel þó rétt að fara nokkrum orðum um helstu atriðin. Í umsögn BSRB var bent á að fáir hagrænir hvatar væru til staðar varðandi hreinorkuvæðingu þyngri bifreiða og vinnutækja þrátt fyrir að losun frá þeim hefði numið um þriðjungi losunar frá vegasamgöngum árið 2017. Bendir BSRB á að gera þurfi úttekt á því hvernig byrðar og ávinningur af hagrænum hvötum dreifist á mismunandi tekjuhópa. Nefndin mælir með að slík úttekt fari fram samhliða nauðsynlegu mati á þeim árangri sem skattalegir hvatar hafa við innleiðingu orkuskipta í samgöngum.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga komu fram sjónarmið um að heimila ætti endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við uppsetningu og kaup á hleðslustöð fyrir þá aðila sem koma að rekstri almenningssamgangna og sveitarfélög sem haga skipulagi skólaaksturs og akstursþjónustu fatlaðra og eldri borgara.

Í þessu sambandi bendir nefndin á að í frumvarpinu er slík ívilnun afmörkuð fyrir íbúðarhúsnæði en telur skynsamlegt að hugað verði að því að styðja við uppsetningu hleðslustöðva á vegum sveitarfélaga og þeirra sem koma að rekstri almenningssamgangna.

Nefndin telur rétt að leggja til nokkrar breytingar á frumvarpinu og leggur líka áherslu á að fyrirkomulag um skattaívilnanir vegna vistvænna ökutækja o.fl. sæti endurskoðun með hliðsjón af fenginni reynslu innan tveggja ára frá gildistöku frumvarpsins, einkum hvað varðar fjöldatakmarkanir og fjárhæðamörk. Beinir nefndin því til ráðuneytisins að slík endurskoðun fari fram árið 2021 og að við þá vinnu verði m.a. litið til þeirra ábendinga sem fram hafa komið við umfjöllun um frumvarpið.

Með frumvarpinu er lagt til að frá og með 1. janúar 2021 skuli eingöngu rafmagns- og vetnisbifreiðar falla undir ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt en ekki tengiltvinnbifreiðar. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að afnám ívilnana á tengiltvinnbifreiðum muni hægja á rafbílavæðingu þjóðarinnar þar sem afnámið gæti dregið úr vilja söluaðila til að selja aðrar gerðir vistvænna bíla til landsins telji bílaframleiðendur sig ekki geta náð markmiðum sínum.

Nefndin hefur að nokkru skilning á þessu og telur ekki tilefni til að ívilnun gagnvart tengiltvinnbílum falli niður með öllu í lok árs 2020. Nefndin leggur til að fjárhæðamark ívilnunarinnar lækki í áföngum og að gildistími hennar verði framlengdur til 31. desember 2022. Nefndin leggur líka til breytingar á heildarfjölda þessara bíla sem verði hækkaður upp í 15.000.

Með frumvarpinu er lagt til að útleiguívilnun vegna þeirra vistvænu ökutækja sem falla undir ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt taki gildi 1. júlí 2020 og gildi til ársloka 2023. Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar er lagt til að gildistími þeirrar ívilnunar verði framlengdur til ársloka 2026 í samræmi við tillögur starfshóps um endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis. Nefndin gerir ekki tillögu um breytingar að þessu leyti en hvetur ráðuneytið til að huga að því hvort rök séu til að framlengja ívilnunina þegar lögin verða endurskoðuð árið 2021. Samhliða þeirri endurskoðun verði metið hvort styttri gildistími dragi úr hvata bílaleigufyrirtækja til að fjárfesta í hreinorkubifreiðum.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að sett verði ákveðið hámark á fjölda þeirra innfluttu bifreiða í almenningsakstri sem nýta eingöngu metan, metanól, rafmagn eða vetni sem orkugjafa og verði heimilt að fella niður virðisaukaskatt af söluverði eða telja það til undanþeginnar veltu. Í umsögnum Strætó bs. og Sambands íslenskra sveitarfélaga er fjöldatakmörkunin gagnrýnd, enda falli töluverður fjöldi hópbifreiða þar undir.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið að með hliðsjón af þeim fjölda sem fallið getur undir ákvæðið sé ástæða til að hækka fjöldatakmörkunina og leggur til að hún miðist við 120 bifreiðar. Nefndin beinir því hins vegar til ráðuneytisins að endurskoða þessa takmörkun ef þakinu verður náð áður en gildistími ákvæðisins er á enda. Þá bendir nefndin á að umrædd heimild nær einnig til skipulagðrar ferðaþjónustu fatlaðs fólks, skipulagðrar ferðaþjónustu aldraðra og skipulagðs flutnings skólabarna.

Að þessu sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem ég hef gert stuttlega grein fyrir og eru á þskj. 742. Hv. þingmenn Þorsteinn Víglundsson, Smári McCarthy, Oddný G. Harðardóttir og Ólafur Ísleifsson skrifa undir nefndarálit þetta með fyrirvara. Þau telja frumvarpið ásamt breytingartillögum nefndarinnar til bóta en að ganga hefði mátt lengra til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir, með fyrirvara, Ólafur Ísleifsson, með fyrirvara, Ólafur Þór Gunnarsson, Smári McCarthy, með fyrirvara, og Þorsteinn Víglundsson, með fyrirvara.

Hæstv. forseti. Ég vil áður en þessum umræðum lýkur benda á að við 3. umr. verður nauðsynlegt að leggja fram breytingartillögur við frumvarpið. Annars vegar er efnisbreyting en þó tengist hún þeirri breytingartillögu sem nefndin leggur til varðandi tengiltvinnbíla vegna yfirsjónar okkar í nefndinni og varðar það að undanþiggja veltu við skattskylda sölu tengiltvinnbíla á þeim árum sem um ræðir, 2021–2023. Það er nauðsynlegt að sú fjárhæð lækki í sömu áföngum og afslátturinn sem ég gat um áðan, þ.e. lækki í skrefum úr 4 milljónum í 2 milljónir árið 2022.

Þá er einnig tæknileg breytingartillaga sem þarf að koma fram við 3. umr. Í 1. gr. frumvarpsins eru torskildar og flóknar breytingar á ákvæði til bráðabirgða XXIV í virðisaukaskattslögum, einkum þar sem stafliðir hennar, sem eru 12 talsins, eiga að taka gildi á fjórum mismunandi tímum, nú þegar, 1. janúar 2020, 1. júlí 2020 og 1. janúar 2021, sem nánar er útskýrt í gildistökuákvæði 4. gr. Þetta flækist svo enn frekar með breytingartillögu nefndarinnar um virðisaukaskatt tengiltvinnbíla sem lækki í áföngum. Það er bagalegt að bráðabirgðaákvæðið þurfi að lesa samhliða 4. gr. breytingarlagafrumvarpsins í 432. máli næstu þrjú til fjögur ár til að átta sig á gildandi rétti. Betra er að taka bráðabirgðaákvæðið í virðisaukaskattslögunum upp í heild sinni og orða með skýrum hætti hvaða reglur og fjárhæðarviðmið gildi á hverjum tíma.

Sú breytingartillaga kemur sem sagt fram við 3. umr. Mér þótti rétt að vekja athygli þingheims á því en þetta er fyrst og fremst til þess að skýra út bráðabirgðaákvæðið svo menn geti gengið að því skilmerkilega og að það sé skýrt samkvæmt lögunum.