150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[14:07]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil gjarnan ræða það sem ég vil kalla framsækið innihald þessa frumvarps og breytingar hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég tala þá sem varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar. Þær breytingar sem verið er að gera, eins og að framlengja virðisaukaskattsundanþágurnar fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar um nokkur ár í viðbót og hækka fjárhæðamörk, koma inn breytingum á því sem fyrirhugað var varðandi tengiltvinnbílana, koma inn bifhjólum, hlaupahjólum, reiðhjólum o.s.frv., hleðslustöðvaívilnunum og ívilnunum varðandi hópferðabíla — allt er þetta mjög mikilvægt og ég vil sérstaklega hrósa hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir að framlengja ívilnanir varðandi tengiltvinnbíla vegna þess að þeir eru þrátt fyrir allt mikilvægir og eru að sumu leyti eina leiðin til að fá afgreidda hingað til lands t.d. rafmagnsbíla, þ.e. að hafa viðskipti varðandi hina bílana vegna þess að þeir eru framleiddir í töluverðu magni og það er svolítil samtenging á milli framleiðslu tengiltvinnbíla og hreinna rafmagnsbíla.

Ég tek líka undir orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur þar sem hún nefnir annað eldsneyti. Við verðum að tryggja að við séum á baki margra hesta í þessu vegna þess að við þurfum að minnka losun vegna umferðar mjög hratt og rafmagnsbílavæðingin ein mun ekki tryggja það.

Ég nefni líka hér útleigu vistvænna ökutækja, þ.e. bílaleiga, að komið sé til móts við hugmyndir þeirra og óskir, að ég tali nú ekki um bíla sem eru í hópferðaakstri. Þar hefur eðlilega gengið mun hægar vegna þess að þar er ekki endilega um að ræða rafmagnstæki. Þar er frekar hugað að vetni og metani.

Allt um allt vil ég endurtaka að ég styð frumvarpið og breytingar nefndarinnar. Þetta eru allt mikilvægar aðgerðir í þágu loftslagsmála og minni losunar og í algjörri andstöðu við allt of algeng orð um að stjórnvöld, ríkisstjórn og Alþingi, séu aðgerðalaus í loftslagsmálum. Við heyrum þetta trekk í trekk og það gerir ekkert annað en að grafa undan því starfi sem er unnið og þetta frumvarp og þessi meðhöndlun hv. efnahags- og viðskiptanefndar sýnir og sannar að ekki er um það að ræða. Það má alltaf gera betur, það vitum við öll, en það sem verið er að gera hér er af hinu jákvæða og því ber að fagna.