150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[14:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég undirritaði nefndarálit í þessu máli með fyrirvara og hyggst gera stuttlega grein fyrir honum hér. Það er margt mjög jákvætt í frumvarpinu, m.a. er eftirgjöf sem veitt er af virðisaukaskatti á reiðhjólum og rafmagnshjólum mjög til bóta. Það sem truflar mig þó alltaf í þessum málum hefur verið nálgun fjármálaráðuneytisins hvað varðar ívilnanir sem slíkar. Alltaf virðist vera undirliggjandi ótti um hvernig þær virki. Þess vegna erum við enn með þök á fjölda bifreiða sem njóta megi slíkra ívilnana og með þeirri breytingu sem hér er verið að gera, sem er mjög af hinu góða, varðandi hópferðabifreiðar til almenningssamgangna, er enn og aftur sett þak á. Ég hefði annaðhvort viljað sjá þessi þök mun rýmri en þarna er um að ræða eða bara að þau væru yfir höfuð ekki til staðar. Út frá hagsmunum umhverfisins er gríðarlega mikilvægt að við ráðumst í orkuskipti í almenningssamgöngum og er jákvætt að sjá að við hefðum svigrúm og fyrirsjáanleika lengra fram í tímann fyrir Strætó bs. að skipta út flotanum að fullu eða eins og kostur er. Því tel ég þökin óþarfa og mætti vera heldur meiri metnaður að setja ekki slíkar girðingar þarna inn. Eins hefði ég eins og fleiri viljað sjá það sett í samhengi í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum hversu mikinn þátt aðgerðir sem þessar gætu átt í orkuskiptum, hvers við gætum vænst að sjá. Ein megingagnrýnin sem sett hefur verið fram á þá aðgerðaáætlun stjórnvalda er að allt vanti um tímasett markmið og að ekki séu betur festir niður hælar hvað varðar áfanga á leið okkar í orkuskiptum og þeirri viðleitni að draga verulega úr losun.

Eins olli mér verulegum vonbrigðum þegar þetta frumvarp kom fyrst fram að það átti að hætta ívilnunum á tengiltvinnbifreiðum en sem betur fer breytti nefndin þeirri nálgun. Ég hefði í þeim efnum viljað ganga enn lengra og einfaldlega framlengja þessa ívilnun til ársloka 2023 eins og með rafmagnsbifreiðar og vetnisbifreiðar þar til við sæjum betur til lands í markmiðum okkar í orkuskiptum í samgöngum. Gestir sem komu fyrir nefndina, m.a. frá Bílgreinasambandinu, bentu á að ekki væru fyrirsjáanlegar neinar sérstakar lækkanir á þessum bifreiðum á komandi misserum. Það gæti haft áhrif á áhuga bílaframleiðenda sem eru í raun enn að skammta þessar bifreiðar inn á einstaka markaði. Þetta gæti haft áhrif á áhuga þeirra til að selja slíkar bifreiðar hingað til lands og þess vegna held ég, sérstaklega þegar horft er til þess að þorri þess árangurs sem við höfum þó náð í breyttri samsetningu bílaflotans okkar hefur einmitt verið í áðurnefndum tengiltvinnbifreiðum, þó að æskilegt væri auðvitað sjá fleiri hreinar rafmagnsbifreiðar þar inni, að þetta sé samt sem áður enn uppistaðan sem heimilin velja sér af þessum valmöguleikum. Þess vegna taldi ég ótímabært að þrepa þessa ívilnun niður eins og hér er gert.

Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi, margt er jákvætt á ferðinni en ég hefði viljað ganga lengra í þessum efnum.