150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

tekjustofnar sveitarfélaga og sveitarstjórnarlög .

391. mál
[14:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugavert. Ég tek undir og skil áhyggjur hv. þingmanns af því vinnulagi sem mér sýnist verða hér sífellt meira áberandi. Í upphafi get ég líka sagt að ég deili skoðun hv. þingkonu á því að Samband íslenskra sveitarfélaga, eins gagnlegt og gott og það er, er fulltrúi sveitarfélaga sem eru allt frá því að vera nokkrir tugir íbúa upp í 125.000. Við þekkjum dæmi um það, t.d. þegar ríkið hugðist bæta sveitarfélögum upp úttekt séreignarsparnaðar, hvernig sveitarfélög klofnuðu, eðlilega bara vegna þess að þau höfðu mismunandi hagsmuni. Þá var farið bil beggja, eins og sagt var, og það gefur væntanlega einhverjum sveitarfélögum plús í sínar bækur á meðan önnur sveitarfélög þurfa að bera það uppi. Þetta er fullkomlega réttmæt ábending.

Ég er forvitinn af því að þetta er að gerast í fleiri málum. Þetta fer inn í samráðsgátt í vor. Síðan heyrist ekkert af málinu fyrr en síðla hausts þegar lítið tækifæri er til að bregðast við. Mig langar þá að spyrja hv. þingkonu Hönnu Katrínu Friðriksson hvort hún hafi ekki samt sem áður talið svigrúm til að boða til aukafundar og fá þá inn umsagnaraðila, m.a. Reykjavíkurborg sem gerir alvarlegar athugasemdir við einstaka þætti málsins.