150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[15:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir framsöguna og innleggið frá meiri hluta velferðarnefndar. Mig langar að spyrja hv. þingmann, fyrst hann talar um 4 milljarða sem eigi að eyða á árinu í að koma til móts við skerðingar hjá nákvæmlega þessum þjóðfélagshópi, hvar hann hafi fundið þá tölu. Ég er náttúrlega bara aumur þingmaður í fjárlaganefnd. Ég hef algjörlega misst af þessum 4 milljörðum. Í fyrra fundust 2,9 milljarðar, þeir voru settir í krónu á móti krónu á meðan 1,1 milljarður upp í þessa 4 á að koma til framkvæmda á þessu ári. Það virtist vera svo illa ígrundað að öryrkjar eru hreinlega skelfingu lostnir. Áttar þingmaðurinn sig á því að það er dálítið mikill munur á því hvort við erum að tala um krónu á móti krónu eða lágmarksgrunnframfærslu upp í 300.000 kr., skatta- og skerðingarlaust?

Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður hafi áttað sig á því að það sem er verið að fara fram á hér er að koma til móts við rétt um 30% kjaragliðnun hjá þessum þjóðfélagshópi sem sannarlega hefur verið brotið jafnræði á síðustu tíu árin. Það er ekki verið að reyna að brjóta jafnræði á einum eða neinum, enda býst ég við að hv. þingmaður hafi tekið eftir því að í hinum svokölluðu lífskjarasamningum eru þessir hópar sannarlega ekki teknir með í reikninginn. Til að byrja með langar mig því til að spyrja hann hvort þessir aðilar hafi t.d. verið jákvæðir þegar umsagnir komu með tillögunni og hvort hv. þingmaður átti sig á því að hér er um að ræða þingsályktunartillögu þar sem við felum ráðherra að sjá um útfærslu á henni eða hvort hann haldi að við séum hér með frumvarp þar sem við þurfum að leggja fram hvernig við ætlum að fjármagna það.

Hins vegar má til gamans geta þess að þetta er eitt af fimm málum í svokölluðum velferðarpakka Flokks fólksins sem við lögðum fram í upphafi og mæltum fyrir. Við erum svo heppin að þetta er eina málið sem við fengum eftir mikið japl, jaml og fuður í samningaviðræðum að taka út úr nefnd. Nú er það komið hingað, hv. þingmaður. Ég spyr um meira næst.