150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrst varðandi það sem þingmaðurinn kom inn á síðast. Mér er hreinlega ekki kunnugt um hvort einhver önnur mál frá Flokki fólksins hafi verið tilbúin til úttektar úr nefndum en ég vissi að þetta mál var það þannig að því sé svarað fyrst. Varðandi það hvernig við teljum 4 milljarða eða hvort við köllum þá 2,9 eða hvað liggur fyrir og þingmaðurinn veit náttúrlega að í fjármálaáætlun er gert áfram ráð fyrir að þessir 4 milljarðar verði til reiðu, ekki bara á þessu ári heldur næsta og þarnæsta og þarnæsta. Þetta er varanleg breyting á framlögum til málaflokksins. Þetta veit þingmaðurinn (Gripið fram í.) og það er þess vegna sem ég nefni það sérstaklega. Hluti þessarar upphæðar er notaður til að mæta krónu á móti krónu skerðingum, ekki að fullu, ekki fremur en hjá ellilífeyrisþegum. Þar er skerðingin 45 aurar á móti krónu og hún er 65 aurar á móti krónu hjá öryrkjum. Ég geri ráð fyrir að þingmaðurinn sé mér sammála í því að auðvitað væri heppilegast að þetta væri á sama hátt hjá báðum hópunum. En þessi tillaga snýst ekki um það heldur snýst hún um að biðja ráðherra um að búa til frumvarp sem tryggði skatta- og skerðingarlausar fyrstu 300.000 kr. hjá öllum. Ég sé ekki hvernig væri hægt að búa til frumvarp sem snerist um eitthvað annað. Hvernig ætti lagafrumvarp að tiltaka tiltekna þjóðfélagshópa sem hefðu einhverja aðra skattprósentu en aðrir? Það er hluti af ómöguleikanum við tillöguna.