150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er afar mikilvægt, og ég hef oft sagt það í ræðu áður, að á þingi séu á hverjum tíma málsvarar sem flestra hópa og að þingmenn taki upp baráttumál, hver með sínu nefi, og hafi skilning á þeim hópum sem þar eru undir. Hv. þm. Inga Sæland fellur undir þetta. Þingmaðurinn hefur af miklum krafti barist fyrir kjörum og málefnum fólks með örorku og eldra fólks og hún á heiður skilinn fyrir það. Það breytir því miður ekki því að málið sem hér er fram komið er að mínu viti ekki þess eðlis að hægt sé að klára það eins og það er lagt fram.

Varðandi orð þingmannsins um kjaragliðnun og kjör kom ég einmitt inn á það í framsögu minni, þótt með óbeinum hætti væri, að kjör varða fleira en bara launin sem fólk hefur. Kjör felast líka í því þegar álögur eru lækkaðar á fólk. Kjör felast líka í því þegar fólk þarf að borga minna fyrir læknisþjónustu eða tannlæknaþjónustu. (Gripið fram í.) Kjör felast líka í því þegar skattar eru lækkaðir og þess vegna verður að líta á heildarsamhengið. Ég held að við þingmaðurinn séum algjörlega sammála um að það verkefni að bæta kjör þeirra sem minnst hafa í þessu samfélagi er eilífðarverkefni og ég veit að þingmaðurinn er mér sammála í því (Forseti hringir.) að á þeirri braut eigum við að reyna að halda áfram.