150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[16:28]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir ræðu hennar og innlegg um kjör þeirra einstaklinga í landinu sem við þurfum að hlúa miklu betur að. Ég minni á tillögu okkar Samfylkingarmanna þar sem við göngum jafn langt eða lengra og verðleggjum. Þetta kostar um 38 milljarða ef við leiðréttum með þeim hætti sem lagt er til sem eru auðvitað miklir peningar en við erum að tala um hópa í samfélaginu, í sömu andránni þó að við eigum kannski ekki að gera það, um öryrkja annars vegar og eldri borgara hins vegar. Þessir hópar eru mjög illa settir. Að áliti Félags eldri borgara ná aðeins um 26% lífeyrisþega 300.000 kr. lágmarkstekjum á mánuði. Um helmingur öryrkja er undir 270.000 kr. og 70% öryrkja eru með tekjur undir 300.000 kr. á mánuði og það er áður en að við förum að tala um skattinn. Það er öfugsnúið og afkáralegt, eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson kom inn á áðan, að öryrkjar borgi jafnvel 36.000–70.000 kr. í skatt á mánuði af tekjum sínum.

Fyrir síðustu kosningar, þarsíðustu og jafnvel kosningarnar þar áður var þessum lágmarkstekjum lofað, 300.000 kr., (Forseti hringir.) og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún eygi þennan möguleika núna og hvort ekki muni um þær skattalækkanir sem búið er að lofa og núverandi ríkisstjórn stendur fyrir.