150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[16:33]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hún er skýrmælt og það fer ekkert á milli mála hvar hún vill leggja sinn hatt. Þeir hópar sem við erum að fjalla um hafa ekki sterkan samningsrétt og við sem höfum áhrif höfum ekki staðið okkur nægilega vel varðandi þessi atriði. Þeir hafa dregist aftur úr hvað varðar kjör. Það vitum við. Okkur gengur illa að rétta hag þeirra. Ég spyr hv. þingmann hvernig standi á því að hagur þeirra hefur, miðað við aðra, ekki batnað sem skyldi. Af hverju hafa þeir dregist svona mikið aftur úr? Af hverju gerum við ekki betur?

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson tæpti á því í ræðu þegar hann fylgdi nefndarálitinu úr hlaði að hugsanlega væri verið að vinna að endurskoðun almannatrygginganna að þessu leyti. Er það ekki heila málið? Þurfum við ekki að taka þetta dálítið upp á breiðum grundvelli? Það eru skerðingarnar líka og hvernig við erum búin að flækja þær inn í þessi erfiðu kerfi eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson er margbúinn að áminna okkur um úr ræðustól. Þurfum við ekki að taka þetta dálítið vel upp? Við þurfum á því að halda að hver vinnandi hönd, hver máttug hönd, hver sem getur lagt eitthvað til, fái tækifæri til þess, að það sé verðlagt og framlög þeirra metin að verðleikum, hvort sem um er að ræða öryrkja eða aldraða.

Þrír þingmenn hafa nú lagt fram jafn margar þingsályktunartillögur sem taka m.a. á málefnum aldraðra í þessu efni.