150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[18:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um einföldun á regluverki og breytingu á ýmsum lögum sem snúa að matvælum. Það var ákveðið að bíða með að stofna Matvælasjóð eins og stóð til með þessu frumvarpi sem átti að sameina AVS, sjóð innan sjávarútvegsráðuneytisins, og Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Það var ákveðið að ræða betur við hlutaðeigandi aðila í landbúnaðargeiranum og ná betur utan um það hvert hlutverk Framleiðnisjóðsins væri innan hins nýja Matvælasjóðs. Framleiðnisjóður hefur skipað stórt hlutverk og menn vildu tryggja að hagur hans yrði tryggður innan þessa nýja Matvælasjóðs sem er meiningin að koma með frumvarp um á næsta ári og stofna Matvælasjóð. Það er mjög mikilvægt að ein lög gildi um matvæli í landinu.