150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum á sviði matvæla.

318. mál
[18:39]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að taka fyrir breytingu á lögum um matvæli en Matvælasjóður er einn af þeim þáttum sem þar er að finna. Hann er opinber sjóður sem hefur það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Til stóð að tveir sjóðir yrðu sameinaðir í hann, Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóður sjávarútvegsins. Við í Framsókn tökum því fagnandi að stofnaður verði Matvælasjóður, enda er þetta liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar við niðurfellingu frystiskyldu á kjöti til landsins og stofnun nýs Matvælasjóðs á breiðum grunni. Fram komu tæknilegir ágallar á málinu og þess vegna var sjóðurinn kallaður inn. Við megum vænta þess að málið komi aftur fram eftir áramótin og þá verður komið til móts við þær áhyggjur sem birtust t.d. í umsögn Bændasamtaka Íslands þar sem það er samningsbundið skilyrði vegna Framleiðnisjóðs. Þar eru framlög bundin í rammasamning um almenn skilyrði landbúnaðarins.