150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[18:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um búvöru- og tollalög. Við þekkjum það fyrirkomulag sem hefur verið í innflutningi á tolllausum afurðum í landbúnaði. Sú ráðgjafarnefnd sem hefur verið þar að störfum og það fyrirkomulag á innflutningi sem ráðherra hefur í framhaldi af því ákveðið er lagt af. Við erum að fara út í breytt fyrirkomulag þar sem horft er til þess hvernig þetta hefur verið síðustu tíu ár. Við höfum líka gert breytingar á málinu til góðs. Við höfum hætt við að flytja inn mikið magn af svínasíðum og horfum til þess að sjá hvernig fram heldur varðandi þann mikla innflutning sem varð með samkomulagi um þessa ESB-tollkvóta. Við breytum líka fyrirkomulaginu varðandi garðyrkjuna og drögum saman þar sem á að opna fyrir innflutning á grænmeti, horfum til reynslunnar um hvernig til tekst og setjum inn endurskoðunarákvæði.