150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:28]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við styðjum að sjálfsögðu lengingu fæðingarorlofs. Það er tímabær og þörf breyting en kannski ég nýti tækifærið núna til að beina því til ráðherra og þingmanna varðandi þá vinnu sem á sér stað núna, heildarendurskoðun á fæðingarorlofslögum, að skoða það að í þeirri nefnd, eins og staðan er núna, sitja einungis aðilar vinnumarkaðarins, aðili frá fjármálaráðuneytinu og ég gæti verið að gleyma einhverjum, en þetta eru mestmegnis aðilar vinnumarkaðarins. Í þeirri nefnd ætti t.d. að vera umboðsmaður barna en þar er enginn talsmaður barna og enginn talsmaður einstæðra foreldra og í raun og veru voða fáir einstaklingar sem koma með ólík sjónarmið í tengslum við ólík fjölskyldumynstur. Niðurstaða úr vinnu með svona einsleitum hópi kann því að verða ekki besta mögulega niðurstaðan. Ég beini því til ráðherra að skoða þetta vinsamlegast og tryggja að við fáum úr þeirri mikilvægu vinnu niðurstöðu (Forseti hringir.) sem getur verið sátt um.