150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[19:54]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Svo það sé alveg skýrt hvað ríkisstjórnin er að gera bendi ég á að hér liggja fyrir ótal umsagnir í málinu, frá Reykjavíkurborg, Öryrkjabandalaginu og fleiri aðilum — (Félmrh.: Lífskjarasamningurinn.) Getur hæstv. félagsmálaráðherra gefið hljóð? (Félmrh.: Ég er alveg rólegur.) Það sem er alveg skýrt er að fyrir liggur þarfagreining hjá félagslega kerfinu upp á u.þ.b. 2.000 íbúðir sem vantar. Hins vegar er engin þarfagreining á almennu íbúðunum sem verið er að biðja um fyrir vinnumarkaðinn. Hún liggur ekki fyrir en ríkisstjórnin er að setja félagslega kerfið í aftursætið með þessu máli. (Félmrh.: Rangt.) Hún lætur félagslega kerfið víkja fyrir þeim skuldbindingum sem ríkisstjórnin undirgekkst í kjarasamningum. Það hefði verið hægur leikur, hæstv. félagsmálaráðherra, að leggja einfaldlega til meira fé til að tryggja hagsmuni þeirra tekjulægstu sem hér eiga í hlut. Það var ekki gert.

Af því að hæstv. félagsmálaráðherra gumar sig af því að standa sig svona vel bendi ég á að þetta mál kom í samráðsgátt í sumar en tók sex mánuði að koma því óbreyttu til þingsins. (Forseti hringir.) Þannig bretta menn greinilega upp ermarnar í félagsmálaráðuneytinu. [Hlátur í þingsal.]