150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:48]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þegar manni er mikið niðri fyrir út af lélegum vinnubrögðum nær maður ekki alltaf að klára allt sem maður hefði viljað sagt hafa. Þessi atkvæðagreiðsla hér er eina tækifæri Alþingis til að koma að endurskoðun á því samkomulagi sem gert var hér síðasta haust. Það sætir furðu að framkvæmdarvaldið geti bundið ríkið til 15 ára með jafn íþyngjandi hætti upp á á fjórða milljarð kr. á ári í útgjöld án þess að þingið staðfesti slíkt samkomulag. Það þykir mér sæta mikilli furðu.

Ég ætla líka að fullyrða að kirkjujarðasamkomulagið eins og það var gert og er í raun verið að framlengja með þessari atkvæðagreiðslu hér hefði ekki staðist lög um opinber fjármál á sínum tíma. Þess vegna sætir það enn meiri furðu að samkomulagið frá því í haust hafi ekki verið lagt fyrir Alþingi. Það var lagt fyrir kirkjuþing til samþykktar en ekki fyrir Alþingi. Þetta þykja mér alveg skammarleg vinnubrögð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)