Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[21:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Það er skýrt í þessu frumvarpi að sérstaklega er tekið tillit til héraðsfjölmiðla og að þeir nái að koma út. Þeir falla undir þessi skilyrði vegna þess að það er afar brýnt að upplýsingaþjónustu sé sinnt á öllu landinu. Við tökum sérstakt tillit til þessara fjölmiðla og þeir falla undir frumvarpið. Ég tel líka mjög mikilvægt að við áttum okkur á þeirri stöðu sem uppi er á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Hún er ekki ný, margir hafa komið að því að vinna að þessu frumvarpi. Á árinu 2016 var skipuð nefnd undir forystu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar og talsverður tími er búinn að fara í vinnslu þessa frumvarps þar sem við reynum að taka mikið tillit til þeirra aðstæðna sem uppi eru á Íslandi svo hægt sé að styðja við íslenskan fjölmiðlamarkað.