150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[22:58]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég biðst fyrst afsökunar á því að hafa verið með þessar slettur. Ég baðst nú reyndar afsökunar á þeim fyrir fram, held ég, áður en ég notaði þær áðan. En nú skal ég lofa því að ég mun ekki sletta frekar hér í kvöld. Ég held að það sé alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni áðan að þetta er auðvitað íhugunar virði, að löggjafarsamkundurnar á Norðurlöndunum telji ástæðu til að styrkja sína ríkisreknu miðla þrátt fyrir að þeir eigi ekki í samkeppni á auglýsingamarkaði. Það breytir ekki stöðunni á Íslandi og ég held reyndar að engir einkareknir fjölmiðlar neins staðar á Vesturlöndum búi við svo yfirþyrmandi samkeppni á þessum markaði. Ég held að ekki finnist nokkurt land á Vesturlöndum þar sem ríkið er með 50% hlutdeild í ljósvakamiðlum og 20% af heild. Þannig að það er alveg rétt.

Það má ekki misskilja orð mín hér áðan á þann veg að það sé ekki rétt að styrkja einkarekna íslenska fjölmiðla án tillits til veru RÚV á auglýsingamarkaði. En á rekstrarstöðuna og á íslenskan fjölmiðlamarkað verður ekki horft án þess að draga fram hlut RÚV. Við höfðum samanburðinn í tölunum áðan. Það er núna í frumvarpi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gert ráð fyrir því að hinn beini stuðningur við einkarekna fjölmiðla nemi 400 milljónum á meðan hlutur Ríkisútvarpsins til samanburðar er yfir 2.000 milljónir á auglýsingamarkaði. Mér fyndist það býsna þversagnarkennt og órökrétt að horfa til beins ríkisstuðnings við einkarekna fjölmiðla án þess að taka tillit til þessarar stöðu Ríkisútvarpsins á markaði.