150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[00:12]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Loksins, loksins, svo að ég vitni í bókmenntirnar, í bókadóm sem gott ef ekki birtist í fjölmiðli á sínum tíma, sjáum við frumvarp til laga um stuðning við fjölmiðla. Þetta er umfangsmikið frumvarp og í því er gert ráð fyrir ýmsum aðgerðum og að sjálfsögðu kerfi í kringum það. Það er án efa ýmislegt sem ég hefði haft örlítið öðruvísi hér og einhvern veginn öðruvísi þar, ég hefði alveg verið til í að skoða fullt af öðrum leiðum en ég er ánægður með að hér sé komið fram frumvarp hæstv. ráðherra sem uppfyllir það sem stjórnarflokkarnir þrír sömdu um í stjórnarsáttmála, að finna leið til að styrkja einkarekna fjölmiðla. Ég er búinn að fylgjast með umræðum um fjölmiðla ansi lengi eins og margir hér inni, forseti, og mér hefur þótt hún einkennast af því að við erum ekki að ræða sjálfa stöðu einkarekinna fjölmiðla heldur erum við alltaf að blanda umræðunni um stöðu Ríkisútvarpsins þar inn í.

Skýrsla sem hér hefur borið á góma þar sem ýmissa spurninga var spurt varðandi stöðu einkarekinna fjölmiðla fjallaði ekki síst um hvort ætti að leyfa áfengisauglýsingar og stöðu RÚV á auglýsingamarkaði. Ég er ekki einn af þeim þó að þeirrar spurningar hafi verið spurt sem afneita því að staða Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði hafi áhrif, alls ekki. Auðvitað hefur hún áhrif. Ég er ekki heldur einn af þeim sem er, ætla ég að leyfa mér að segja, þeirrar barnalegu trúar að halda að breyting á þeirri stöðu færi nákvæmlega sömu fjármuni bara til einkareknu fjölmiðlanna. Gjörið svo vel. Ég þykist hafa betri skilning á markaðnum en þeir hv. þingmenn sem tala þannig að fyrirtæki sem ákveður að kaupa auglýsingu hjá Ríkisútvarpinu, væntanlega vegna útbreiðslu Ríkisútvarpsins og áhorfs, hugsi bara: Heyrðu, það er ekki lengur í boði. Ég set bara nákvæmlega jafn háa upphæð í einhverja minni fjölmiðla. Svona virkar markaðurinn ekki, hv. þingmenn sem sitja hér í þessum sal. Ég get kennt ykkur meira um markaðinn á sérnámskeiði hér síðar í kvöld. [Hlátur í þingsal.]

Meira að segja ég, forseti, er fallinn í þá gryfju sem við gerum alltaf þegar við erum að ræða um einkarekna fjölmiðla, að tala endalaust um RÚV. Af hverju? Þetta frumvarp snýst ekki um RÚV. Hættið að láta þetta frumvarp snúast um RÚV. Horfist í augu við það, hv. þingmenn, að staða einkarekinna fjölmiðla er grafalvarleg, að allt sem heitir að flækja þá umræðu í umfangsmikla endurskoðun á RÚV sem við vitum öll hér inni, af því að við erum skynsamt fólk, að tekur langan tíma, eykur hættuna á því að einkareknir fjölmiðlar fari að týna tölunni. Af hverju höfum við áhyggjur af stöðu einkarekinna fjölmiðla? Miðað við umræðuna er eina svarið við því: RÚV. Ég er búinn að reyna, forseti, að spyrja hv. þingmenn aftur og aftur hvernig standi á því að í löndum þar sem ríkisfjölmiðill er ekki á auglýsingamarkaði hefur fólk líka áhyggjur af stöðu einkarekinna fjölmiðla. Hvernig stendur á því? Ég er væntanlega ekki gáfaðri en svo að ég dreg þá ályktun að þá sé auglýsingahlutdeild ríkisfjölmiðilsins ekki aðalbreytan eins og sumir virðast draga ályktun um. Af hverju styrkja Norðurlöndin sína einkareknu fjölmiðla? Ekki með skattaívilnunum, hv. þm. Óli Björn Kárason, heldur með beinum stuðningi í gegnum millifærslusjóð. Af hverju eru þau að því þrátt fyrir að ríkisfjölmiðill viðkomandi lands sé ekki á auglýsingamarkaði? Enginn hefur getað svarað þessari spurningu, enginn sem heldur því fram að vera RÚV á auglýsingamarkaði sé aðalbreytan. Það er svo mikil þröngsýni að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Hefur þetta fólk aldrei farið á internetið? Hefur þetta fólk aldrei séð auglýsingar á internetinu? Hefur þetta fólk lesið tölur um auglýsingar á alþjóðlegum veitum? Hefur þetta fólk fylgst með deilum Evrópusambandsins við Facebook, Google, YouTube o.s.frv.? Nei, þetta skiptir ekki máli. RÚV skal það vera. Að manni læðist sá grunur að í raun snúist þetta nefnilega ekki um annað en þá skoðun fólks að við eigum kannski ekki að vera með ríkisútvarp. Hér hafa einhverjir hv. þingmenn sagt þá skoðun sína, sem þeir hafa svo sem ekki legið á árum saman, verið býsna heiðarlegir með. Það er fínt, en hættum að blanda því inn í nauðsynlegar aðgerðir til stuðnings einkareknum fjölmiðlum. Þá erum við ekki að standa okkar plikt hér ef við laumum því áhugamáli okkar hér inn því að staða einkarekinna fjölmiðla er grafalvarleg. Það er ástæða fyrir því að í öllum löndum í kringum okkur eru stjórnvöld að velta fyrir sér hvernig þau geti stutt við lýðræðislega umræðu í gegnum einkarekna fjölmiðla. Af því að lýðræðinu sjálfu er ógnað, svo að ég leyfi mér að vera dramatískur. Ég er ekki einu sinni að grínast með þetta þó að mér hætti stundum til að grínast í þessum ræðustól. Lýðræðinu sjálfu er ógnað með því að staða fjölmiðla sem geta rýnt í samfélagsumræðuna og upplýst er að veikjast. Okkar hlutverk er að verja þá fjölmiðla og mér er alveg sama hvaða efnistök þeir fjölmiðlar sem munu fá styrk samkvæmt þessu frumvarpi sýna. Mér er alveg sama hverjir eigendur þeirra eru. Það er fullt af eigendum fjölmiðla sem ég verð ekkert sérstaklega ánægður með að fái styrk. Mér er alveg sama hverjar pólitískar skoðanir þeirra eru. Það sem mér er ekki sama um er að þeir fjölmiðlar hætti að vera til sem með gagnrýnum augum veita mér og okkur öllum hér inni aðhald. Um það er mér ekki sama, forseti.

Ég skal hvenær sem er, og er búinn að bjóða það raunar í óformlegum sem formlegum samtölum, setjast yfir stöðu RÚV en ég tek ekki þátt í því að blanda því inn í þetta frumvarp. Spyrjum okkur af hverju allir eru að velta fyrir sér stöðu einkarekinna fjölmiðla, algjörlega óháð ríkisreknum fjölmiðlum, í viðkomandi landi. Spyrjum okkur af hverju nefnd eftir nefnd í öllum löndum veltir fyrir sér hvernig hægt sé að efla lýðræðislega umræðu. Veltum því fyrir okkur hvort sé mikilvægara, að efla lýðræðislega umræðu eða afstaða okkar til þess hvort ríkið reki fjölmiðil á Íslandi.

Þetta frumvarp er eins og ég kom inn á áðan tillaga að því hvernig hægt er að gera þetta. Ég held að margt í þessu frumvarpi verði flókið og erfitt í framkvæmd. Það mun þurfa að finna leið til að gera ýmislegt. Sumt hugnast mér mjög vel, annað hefði ég haft öðruvísi eins og ég kom inn á, en þetta frumvarp er raunveruleg tillaga um það hvernig við getum gert það sem við sammæltumst um að gera þegar við mynduðum þessa ríkisstjórn. Af hverju sammæltumst við um það? Út af öllu því sem ég var að tala um, út af þessum áhyggjum sem við höfum. Ég ætla að leyfa mér að spá því að ef ekki komi til stuðnings við einkarekna fjölmiðla sem helst þyrfti að koma til framkvæmda um áramótin, sem verður þá augljóslega ekki núna eða verður afturvirkt, horfum við á það að fjölmiðlalandslagið verður orðið allt annað eftir ár. Þeir munu ekki allir lifa þetta af. Munu koma nýir í staðinn? Ég veit það ekki. Ég held að við þurfum að vera býsna auðug til að takast á við það hlutverk að koma á fót fjölmiðli í dag. Er það það sem við viljum? Viljum við að bara fólk og fyrirtæki sem eiga nóg af peningum og geta tapað peningum eigi fjölmiðla eða viljum við að hér sé fjölbreytt flóra lítilla fjölmiðla sem taka samfélagsumræðuna mismunandi efnistökum? Viljum við styrkja samfélagsumræðuna? Af hverju erum við að styrkja stjórnmálaflokka? Af hverju erum við að styrkja okkur sjálf sem hluta af lýðræðislegri umræðu? Af hverju erum við að því? (Gripið fram í: Akkúrat.) (Gripið fram í: Já, af hverju?) Þeir sem hrópa hér fram í ættu að fara yfir atkvæðaskýringar sínar í umræddum málum. Hvaða tvískinnungur er það að styrkja okkur sjálf og stjórnmálaflokkana sem við tilheyrum en vera ekki tilbúin til að styrkja fjölmiðlana sem fjalla um okkur? Ég skil það ekki, en það er margt í þessum heimi sem ég skil ekki. Ég er, forseti, einfaldur maður og reyni ekki að flækja hlutina fyrir mér að óþörfu. Þess vegna horfi ég svona á hlutina.

Hér er frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Fjöllum um það, fjöllum um innihald þess, fjöllum um þörfina, fjöllum um nauðsynina, finnum leiðina til að gera þetta sem best. Hér eru fínar tillögur, finnum hvort þetta virkar eða hvort þarf að hnika einhverju til. Verum ekki að blanda því í umræður um Ríkisútvarpið og mismunandi afstöðu okkar til þess. Ég lít á Ríkisútvarpið sem eina mikilvægustu menningarstofnun landsins. Á afstaða mín að litast af því að ég telji Kvikmyndasafnið eða safnkost RÚV, Rás 1, hitt og þetta sem ég get nefnt, eitt það mikilvægasta sem við getum gert til að styðja íslenska menningu, þ.e. að halda þessu úti? Á ég að láta það lita afstöðu mína til stuðnings við einkarekna fjölmiðla? Það galið, forseti. Hættum að flækja þetta.

Nú sé ég að ég þarf ekki að tala lengur en ég ætla að enda á því að brýna okkur enn einu sinni og ég ætla að spyrja þessara spurninga sem enginn sem ég hef spurt hefur getað svarað, enginn af þeim sem ég hef farið í andsvör við hér í kvöld, enginn af þeim sem ég hef setið með í þáttum í ýmsum fjölmiðlum, einkareknum sem ríkisreknum, enginn af þeim sem ég hef spjallað við út undir vegg. Enginn hefur getað svarað mér því hvernig stendur á því að Norðurlöndin styrkja einkarekna fjölmiðla þrátt fyrir að ríkisfjölmiðlarnir þar séu ekki á auglýsingamarkaði. Hvernig stendur á því? Er þetta eitthvað sem Norðurlöndin horfa á og segja: Heyrðu, nei, þetta er ekki þörf? Þingmenn á Íslandi segja að það þurfi bara að koma ríkisfjölmiðlum af auglýsingamarkaði. Það er ekki þannig hér þannig að það getur ekki verið að við þurfum að styðja einkareknu fjölmiðlana? Nei, þeir eru að bæta í stuðninginn. Ég ætla að leyfa mér, forseti, að vitna í greinargerðina um umræðuna sem er í gangi á Norðurlöndunum þar sem enginn velkist í vafa um þörfina á stuðningi við einkarekna fjölmiðla.

„Mikil umræða hefur því átt sér stað á Norðurlöndunum á umliðnum árum um leiðir til að styrkja fjölmiðla enn frekar svo að þeir geti rækt lýðræðishlutverk sitt sem skyldi á þessum miklu breytingatímum. Stjórnvöld annarra norrænna ríkja hafa brugðist við þessari þróun með því að gera breytingar á ríkisstyrkjum til fjölmiðla með það að markmiði að efla getu þeirra til að sinna lýðræðishlutverki sínu í breyttu rekstrarumhverfi. Þá hafa á síðustu árum einnig verið gefnar út svonefndar hvítbækur, m.a. í Noregi og Svíþjóð, þar sem lagt er til að ríkisstyrkir til fjölmiðla verði auknir auk þess sem ráðist verði í frekari stuðningsaðgerðir til handa fjölmiðlum.“

Af hverju eru þau að þessu þrátt fyrir að ríkisfjölmiðlar viðkomandi landa séu ekki á auglýsingamarkaði?

Ég óska eftir svari við þessari spurningu hjá þeim sem þegar hafa talað og þeim sem eftir eiga að tala og halda því fram að stóra breytan sé vera RÚV á auglýsingamarkaði.