150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[01:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa ræðu, það sem ég skildi af henni. Hv. þingmanni varð mjög tíðrætt um að ríkisstarfsmenn væru að skammta okkur efni. Ég er ekki lögmaður en hv. þingmaður er það. Fyrir einum 12 árum var Ríkisútvarpinu breytt í ohf., opinbert hlutafélag. Ég bið hv. þingmann að rifja upp með mér hvort starfsmenn þessa opinbera hlutafélags hafi enn stöðu opinberra starfsmanna inni í þessu fyrirtæki. Hv. þingmaður ræddi fyrirtækið dálítið mikið.

Ég deili þeim áhyggjum hv. þingmanns að við verðum að þessu frumvarpi samþykktu búin að opna ríkissjóði æð, að í viðbót við þá milljarða sem við greiðum þegar fyrir fjölmiðla, nauðug viljug, sé núna verið að opna ríkissjóði æð. Ég spyr hv. þingmann hvort hann óttist eins og ég að þær 400 milljónir sem nú er ætlað að setja í svokallaða frjálsa fjölmiðla á ári, mínus rekstrarkostnað við einn hæstaréttarlögmann og tvo endurskoðendur eða öfugt og eitt stöðugildi til að taka á móti umsóknum um styrki, muni bólgna út og verða að töluvert hærri upphæð innan mjög skamms tíma.