150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[01:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á að óska hæstv. ráðherra til hamingju með að vera kominn fram með þetta frumvarp. Það þurfti mikla baráttu til, enda ekki allir sáttir við frumvarpið eins og það lítur út. Það hefur svo sem ekki farið fram hjá neinum að það eru mismunandi skoðanir á þessu máli meðal stjórnarflokkanna.

Ég verð að viðurkenna að ég á sjálf í svolitlum vandræðum með í hvorn fótinn ég eigi að stíga í þessum efnum. Almennt aðhyllist ég það að það skipti fyrst og fremst máli fyrir fyrirtæki að starfa við einfalt og gott rekstrarumhverfi þar sem skattar eru lágir og fyrirtæki eiga að geta starfað á markaði án ríkisafskipta. En þá er líka hægt að velta fyrir sér: Eru fjölmiðlar eins og hvert annað fyrirtæki? Þeir hafa mörg einkenni fyrirtækja. En þeir hafa líka ýmislegt annað. Fjölmiðlar eru jú fjórða valdið og eru gríðarlega mikilvægir í lýðræðislegri umræðu, auk þess að vera mikilvægt menningarfyrirbrigði og mikilvægir fyrir tungumálið okkar. Ekki síst vegna þess hversu þeir eru mikilvægir fyrir lýðræðislega umræðu er líka mjög mikilvægt að þeir séu frjálsir og óháðir.

Ég styð við menningu og hef stutt aðgerðir er lúta að því að styðja við ýmiss konar menningu. Það má velta fyrir sér: Er þess vegna eðlilegt að styðja við fjölmiðla? Ég er ekki fullkomlega sannfærð en ég átta mig á því að það er ástæða til að spyrja þessarar spurningar. Við höfum beitt ákveðnum ríkisafskiptum þegar um er að ræða markaðsbresti og þá get ég nefnt til að mynda nýsköpun sem við styðjum við með ríkisaðgerðum vegna þess að við vitum hversu mikilvæg hún er og við vitum að rannsóknir, tækniyfirfærsla og nýsköpun verður ekki stunduð af fullu afli nema til þess komi einhver ríkisstuðningur og öll þau lönd sem við berum okkur saman við styðja við nýsköpun, til að mynda, með einhverjum hætti. (Gripið fram í.) Og svo er, virðulegur forseti, öskrað hér á bak við: Fjölmiðla líka. Já, það á vissulega við í einhverjum tilfellum að stutt sé við fjölmiðla. En er ekki líka rosalega mikilvægt, hv. þingmaður, að fjölmiðlar búi við sæmilegt rekstrarumhverfi? Og er það þá ekki markaðsbresturinn sem við erum að lýsa þegar við höfum áhyggjur af rekstri frjálsra fjölmiðla, markaðurinn sem slíkur, að það sé eitthvað brostið þar? Eitt af því er að sjálfsögðu sú staðreynd að á markaðinum er risastórt ríkisrekið fyrirtæki. Á öllum öðrum mörkuðum myndum við telja það óæskilegt.

Það hefur verið komið inn á það að í stjórnarsáttmálanum er vissulega fjallað um fjölmiðla. Þar segist ríkisstjórnin ætla að bæta starfsumhverfi fjölmiðla, t.d. með endurskoðun á skattaumhverfinu. Það er líka tekið á því í ríkisstjórnarsáttmálanum að við ætlum að breyta skattlagningu á tónlist, ritmál og fjölmiðla. Þessi ríkisstjórn hefur verið afkastamikil og til að mynda breytt sköttum á tónlist er varðar höfundaréttarvarið efni. Bækurnar fjölluðum við sérstaklega um og þá sá ég alltaf fyrir mér að við værum fyrst og fremst að horfa á skattumhverfið en við enduðum á því að fara aðra leið eftir að hafa skoðað það mál nokkuð vel og ítarlega. Það endaði í einhvers konar styrkjaformi. Þannig að ég skil hvaðan fólk er að koma þegar talað er um mikilvægi þess að styrkja frjálsa fjölmiðla því að það er auðvitað alveg ofboðslega mikilvægt að frjálsir fjölmiðlar starfi. Við vitum það bara af öllu því sem er að gerast í heiminum í dag að fjölmiðlar gegna lykilhlutverki og það er líka gríðarlega mikilvægt að fjölmiðlar hafi burði til að fjalla um viðfangsefnið. Ég verð að viðurkenna að ég held hreinlega — og nú er ég ekki að taka Ísland í þessu dæmi heldur bara að tala almennt — að við búum við allt of mikið af ekki nógu góðum fjölmiðlum, þó að við búum líka við suma fjölmiðla sem er nokkuð sterkir.

Út frá þeirri umræðu sem hefur skapast í dag hef ég líka svolítið velt fyrir mér: Af hverju er það svo að allt of fáir fjölmiðlar eru í raun að selja áskrift hérna á Íslandi? Ég velti fyrir mér hvort rekstrarformið sem fjölmiðlar eru með, þessi fríblöð og fríar greinar og svona, hvort það sé eitthvað athugavert við það. Við sjáum að sumir fjölmiðlar eru farnir að reyna að feta sig inn á að selja aðgang. En talandi um það að ég standi hér í ákveðnum vandræðum með það í hvorn fótinn ég eigi að stíga, þá skil ég vel hvaðan þessar hugmyndir koma og ég tek undir mikilvægi þess að við grípum inn í þá þróun sem er að eiga sér stað. En ég er líka á því að RÚV spili svolítið lykilhlutverk. Ég velti því reyndar alveg fyrir mér hvort við höfum farið rétta leið þegar við gerðum RÚV að ohf.. Ég skal bara viðurkenna að ég studdi það á sínum tíma og allar umræðurnar sem við áttum um ríkisstofnanir og að gera þær að sjálfstæðum einingum sem opinber hlutafélög. Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið mistök. Mér finnst alveg ástæða til að velta því upp.

En ég kom inn á það að mér finnst RÚV gegna mikilvægu hlutverki sem fjórða valdið í lýðræðislegri umræðu. Auk þess að vera mikilvægt út frá menningarhlutverkinu og tungumálinu okkar hefur það líka rosalega stórt öryggishlutverk. Þá verð ég því miður að segja að mér finnst það hafa brugðist því á síðustu dögum. Ég verð líka vör við það bara þegar maður ferðast um landið að það kann að vera auðveldara að ná Bylgjunni eða K100 en RÚV, ríkisfjölmiðlinum. Ég skil hreinlega ekki hvernig á því stendur þegar mikilvægt, skilgreint hlutverk RÚV er þetta öryggishlutverk þannig að ég aðhyllist þá skoðun að við þurfum að bregðast við.

Ég get hrósað hæstv. ráðherra fyrir að vera kominn fram með frumvarpið því það er búið að ræða þetta í mörg ár. Ég viðurkenni að það er mjög auðvelt að koma upp og gagnrýna en það eru ekkert rosalega margir sem hafa komið með heildstæða lausn um hvað best er að gera. Þetta er vissulega tilraun til þess. En ég legg til og vænti þess að í umræðunni um það frumvarp sem hér liggur fyrir verði líka hlutverki RÚV velt upp, hversu stór ríkisfjölmiðillinn er á auglýsingamarkaði og kannski ekki síst hversu ágjarn hann er í sölu auglýsinga. Hæstv. ráðherra hefur talað um að það kunni að vera hægt að taka á svona þáttum í þjónustusamningi við RÚV. Ég myndi reyndar vilja sjá slíkt í lögum um Ríkisútvarpið og finnst ástæða til að horft verði til þess við frekari umfjöllun á þessu máli.

En ég hygg að það sé þó gott að þetta mál sé komið fram og við fáum tækifæri til að fjalla ítarlega um það í nefndinni og vænti þess að ýmsar umsagnir komi um þetta mál og að við gefum okkur góðan tíma til að vanda vel til verka því að ég held að það sé lykilatriði í þessum efnum.