150. löggjafarþing — 46. fundur,  17. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[02:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir gagnlegar umræður og þær athugasemdir sem hafa borist við frumvarpið. Eitt er ljóst, við erum sammála um að rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla sé bágborið og við erum hér komin með leið að því hvernig hægt sé að styðja við rekstrarumhverfið. Það er listað í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, með síðari breytingum.

Mig langar að fara yfir nokkur atriði sem hafa verið nefnd í umræðunni. Ég sakna þess að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sé ekki lengur hér vegna þess að eitt af því sem hann nefndi var staða íslenskunnar og hvort ekki væri fjallað um hana sérstaklega í frumvarpinu. Það má upplýsa hv. þm. Þorstein Sæmundsson um það að í 3. gr. er fjallað um íslenskuna og þau skilyrði — það er mjög ánægjulegt að hv. þm. Þorstein Sæmundsson sé mættur í salinn til að fá frekari upplýsingar um það hvernig við ætlum að gæta að tungumálinu okkar. — Um 3. gr. segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt gildissviði kaflans er gert að skilyrði að það efni sem fjölmiðill miðlar sé ætlað almenningi hér á landi. Í því felst að efni fjölmiðils sé að meginstefnu á íslensku og er þá átt við ritmál, talmál og táknmál. Samkvæmt 1. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, er íslenska þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þeirra laga skulu stjórnvöld tryggja að unnt verði að nota þjóðtunguna á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Þá er tekið fram í 5. gr. sömu laga að ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð. Í júní 2019 var samþykkt á Alþingi tillaga til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.“

Vil ég með þessu vekja athygli á því að við erum svo sannarlega að styrkja stöðu tungumálsins með því að leggja fram þetta frumvarp.

Annað sem hefur verið nefnt í umræðunni er staða héraðsmiðla eða staðbundinna fjölmiðla. Þá vil ég vekja athygli á því að í 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Staðbundinn fjölmiðill er landshluta-, héraðs-, hverfis- eða bæjarmiðill sem hefur fyrst og fremst staðbundna efnisskírskotun og höfðar aðallega til notenda sem tengsl hafa við útbreiðslusvæði miðilsins.“

Ekki gilda sömu reglur um héraðsfjölmiðla og aðra fjölmiðla. Við gerum á því ákveðna undantekningu svo að þeir geti uppfyllt þessi skilyrði því að við áttum okkur á því að þeir gegna mjög mikilvægu hlutverki. Á bls. 18 í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Staðbundnir fjölmiðlar eru undanþegnir skilyrði e-liðar, samanber 2. mgr. greinarinnar.“

Til að upplýsa þingheim kemur fram í e-lið um skilyrði fyrir endurgreiðslu á kostnaði, með leyfi forseta:

„Efni sem birtist í fjölmiðli skal vera fjölbreytt og ætlað fyrir almenning á Íslandi.“

Við viljum taka sérstaklega á því að héraðsfjölmiðlarnir uppfylli þessi skilyrði þannig að e-liðurinn á ekki við. Áhyggjur þeirra þingmanna sem nefndu að ekki væri tryggður stuðningur við héraðsfjölmiðla eru ástæðulausar.

Einnig kom fram í máli hv. þm. Karls Gauta að við myndum setja á fót nýja stofnun. Það er ekki rétt, við verðum með ákveðna úthlutunarnefnd og þar er formaður og varaformaður en hér er ekki verið að stofna nýja stofnun.

Útlagður kostnaður hefur verið metinn sem eitt stöðugildi sem rúmar ekki eina stofnun svo það sé sagt hér þannig að ekki er heldur ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Virðulegur forseti. Ég tel ánægjulegt að við séum komin fram með þetta frumvarp. Það gengur til allsherjar- og menntamálanefndar að þessum umræðum loknum.