150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2018.

431. mál
[10:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég er á nefndaráliti meiri hlutans með fyrirvara sem ég vil gera aðeins grein fyrir. Nú liggur fyrir að fjárlaganefnd vill samþykkja ríkisreikninginn fyrir 2018 áður en hún hefur haft tækifæri til að greina endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi. Eins og kunnugt er sendi stofnunin inn leiðréttingu á endurskoðunarskýrslunni í kaflanum um gjöld ársins í kjölfar á frumskoðun nefndarinnar á skýrslunni. Auk þess á nefndin eftir að greina ríkisreikninginn með sjálfstæðum hætti.

Í sjálfu sér er óheppilegt að ríkisreikningur sé samþykktur áður en þessi vinna fer fram og ég legg því áherslu á að vinnan verði unnin við fyrsta tækifæri og að fjárlaganefnd gefi út álit á hvoru tveggja í formlegri skýrslu sem verði lögð fyrir þingið og rædd innan þess. Ég held reyndar að formaður nefndarinnar og aðrir nefndarmenn séu mér sammála í því.

Þetta mikilvæga mál kom í hendur þingsins í miðri fjárlagavinnunni og afar takmarkaður tími var til að kynna sér það nægilega vel. Það þurfa að fást skynsamleg svör við því hvers vegna ríkisreikningur er ekki birtur og frágenginn á svipuðum tíma hjá stærstu hlutafélögum og fyrirtækjum landsins, þ.e. í febrúar og mars. Ég hefði talið það réttu vinnubrögðin í þessu.

Ég mun sitja hjá við afgreiðslu málsins vegna þess að ekki hefur unnist tími til að fara ofan í saumana á reikningnum. Það felur í sér mjög umfangsmikla vinnu sem þingið hefur ekki haft tíma til að vinna. Eins og áður sagði er ég á þessu nefndaráliti með fyrirvara og nú hef ég gert grein fyrir honum.