150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[11:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er dálítið ringlaður yfir röksemdafærslu hv. þingmanns. Hann talar um ágreining, væntanlega innan velferðarnefndar, og hann talar um að vilja ekki stíga á tær. Alþingi samþykkti í gær samhljóða aðgerðaáætlun í jafnréttismálum þar sem orðalagið er mjög skýrt, að fæðingarorlof skuli lengja í 12 mánuði og það skuli skiptast fimm, fimm, tveir. Þingið samþykkti þessa aðgerðaáætlun samhljóða, þar með taldir allir nefndarmenn hv. velferðarnefndar, en nú er vísað í ágreining innan velferðarnefndar sem samþykkti þessa aðgerðaáætlun samt sem áður í gær og talað um að ekki megi stíga á tær. Stíga á tær hvers? Stíga á tær hv. Alþingis sem samþykkti í gær skiptinguna fimm, fimm, tveir? Talað hefur verið um það allar götur frá því að umræða hófst um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði að þessi skipting yrði að lágmarki að vera fimm, fimm, tveir til að fæðingarorlof myndi virka sem það jafnréttistæki sem það á að vera á vinnumarkaði. (Forseti hringir.) Yfir nótt á að biðja þingið að skipta um skoðun.