150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[14:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál hafði alla burði til þess að vera hið ágætasta mál, jafnvel hið besta mál að mati okkar í þingflokki Viðreisnar. Við höfum séð ýmislegt mæla með því, reyndar margt, að þarna væri hægt að ná fram aukinni skilvirkni með sameiningu stofnana en lykilatriðið í því að vel takist til með svona mál er að vandað sé til verka. Á það hefur skort í þinglegri meðferð vegna þess hvernig stjórnarmeirihlutinn lagði málið upp. Vegna þess knappa tíma sem velferðarnefnd var gefinn til að vinna með málið og þess óásættanlega tíma sem þeim sem málið varðar var gefinn til að koma athugasemdum sínum til skila getum við ekki stutt þetta mál heldur sitjum hjá.