150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[15:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa menn náð saman um mikilvægt mál sem ég hef þegar hafið skoðun á, eins og fram kemur í máli hv. framsögumanns þessa máls, Helga Hrafns Gunnarssonar. Við erum sammála um að við eigum að tryggja öflugt eftirlit með lögreglu, það er bæði fyrir réttindi borgaranna og lögregluna sjálfa. Því er nú sinnt af þriggja manna nefnd sem komið var á fót 2016 og það er afar mikilvægt skref sem þáverandi dómsmálaráðherra, Ólöf Nordal, tók. Ég hef kynnt að það sem ég hef nú þegar hafið skoðun á eru sjálfstæðar rannsóknarheimildir, auknar fjárheimildir, hvort og hvernig eigi að auka sjálfstæði nefndarinnar, hvort útvíkka eigi starfssvið hennar og hver aðkoma þingsins eigi að vera að slíku eftirliti. Ég mun vinna það áfram ásamt þeim tillögum sem ég fæ frá þinginu og koma með tillögur til þingsins um enn öflugra eftirlit og vonast eftir áframhaldandi stuðningi, umræðu og samstöðu um slíkt.