150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í andsvari hv. þingmanns fólst í sjálfu sér engin sérstök spurning önnur er sú hvort ekki væri meiri hluti fyrir því að lengja fæðingarorlofið. Auðvitað er meiri hluti fyrir því, ég veit ekki betur en að allir þingmenn sem greiddu atkvæði í gær hafi greitt atkvæði með því þannig að a.m.k. liggur sá vilji þingsins fyrir.

Þingmaðurinn velti líka upp skiptingunni og við áttum orðastað um hana í morgun. Þá benti hv. þingmaður m.a. á að með því að hafa of víðan glugga á skiptingunni að fjórir, fjórir, fjórir kynni að vera að við værum að gefa ádrátt um að stíga aftur á bak í jafnréttisbaráttunni. Til þess er tekið tillit í núverandi breytingartillögu og ég held að hv. þingmaður ætti að gleðjast yfir því að orðræða hans í þinginu hafi þrátt fyrir allt einhver áhrif og að saman getum við náð lendingu sem við getum öll verið sátt við.