150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:51]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða ræðu. Ég er alveg sammála því að þetta er prýðisgott mál sem jafnréttismál en þá er líka alveg skýrt og hefur legið fyrir í a.m.k. sjö ár að sem jafnréttismál hefur verið talið mikilvægt að réttur foreldra til fæðingarorlofs, sérstaklega þegar það verður orðið 12 mánuðir, sé sem jafnastur, að í raun og veru sé sem minnst til skiptanna á milli þeirra því að annars er hætta á að við lendum í sömu stöðu og við erum í í dag, að konur taki sex mánuði og karlar þrjá. Ef við förum í 12 mánuði er líklegra að konur taki átta mánuði og karlar fjóra. Þá er þetta jafnvel orðinn konum fjötur um fót á vinnumarkaði.

Svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi helst haft einhverjar efasemdir um þá útfærslu sem aðilar vinnumarkaðarins hafa ítrekað lagt til, að fæðingarorlofið verði fimm mánuðir á hvort foreldri og tveir til skiptanna, og að hann sé ekki sammála sjálfum sér lengur, Sjálfstæðisflokkurinn sem var á grænum takka í gær í aðgerðaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum þar sem skýrt var kveðið á um að þetta skyldu vera fimm mánuðir á hvort foreldri og tveir til skiptanna. Hvað olli þessari hugarfarsbreytingu hjá Sjálfstæðisflokknum á þeim tæpa sólarhring sem liðinn er frá því að Alþingi samþykkti skiptinguna fimm plús fimm plús tveir? Mér þætti áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hvers vegna við erum búin að standa í þessari hringavitleysu í dag af því að Sjálfstæðisflokkurinn skipti um skoðun.