150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar opinbera fjárfestingu nefndi ég í minni ræðu að hún hefur aukist um 45% frá því að þessi ríkisstjórn tók við og við erum samt ekki komin upp í sögulegt meðaltal. Það hefur til að mynda áhrif á fjárfestingu atvinnugreinanna því að allt spilar þetta saman. Ég get nefnt eitt dæmi: Þegar hið opinbera kynnti fyrirætlanir um fjárfestingu í hraðhleðslustöðvum sem er liður í orkuskiptaáætlun stjórnvalda kom einkageirinn mjög sterkur inn með annað eins til að fjárfesta í þeim geira þannig að allt virkar þetta saman. Þess vegna legg ég sérstaka áherslu á opinbera fjárfestingu í mínu máli. Ég held að þar með getum við líka stutt við atvinnulífið til að fjárfesta í mikilvægum verkefnum.

Síðan nefnir hv. þingmaður aðstæður í atvinnulífinu. Hér var samþykkt að lækka skatt á fjármálafyrirtæki. Við höfum séð að það hefur hægt á útlánum til atvinnugreina hjá fjármálafyrirtækjum í landinu. Horfum á hvernig búið er að þeim en gerum það varlega því að það skiptir líka miklu máli að regluverk sé skýrt. Við erum að sjálfsögðu að skoða alla þá þætti og þetta getur til að mynda orðið til þess að létta rekstur fjármálafyrirtækja sem eru auðvitað stærstu lánveitendur í fjárfestingum í einkageiranum.