150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ef frá eru talin þau fjölmörgu áföll sem dunið hafa á okkur á undanförnum dögum og vikum þá eru það kannski efnahagsmálin og staðan í þeim sem er okkur efst í huga. Þúsundir landsmanna eru að missa vinnuna þessar vikurnar og ég hefði áhuga á því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hverjar eru þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur í hyggju að ráðast í til að örva hagkerfið á nýjan leik? Við stöndum frammi fyrir fjölþættum vanda. Þrátt fyrir vaxtalækkanir Seðlabankans er á það bent að þær vaxtalækkanir skila sér t.d. ekki til fyrirtækja. Fjármálakerfið okkar er enn ærið kostnaðarsamt, sprotafyrirtæki kvarta undan rekstrarumhverfi sínu. Hvað mest atvinnuleysi er í hópi háskólamenntaðra samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar sem er nýjung í íslensku hagkerfi. Mér þætti því gott að heyra hvað ríkisstjórnin hyggst gera til að ráðast í aðgerðir til að draga úr þessu mikla atvinnuleysi sem við höfum séð aukast hratt á undanförnum vikum.