150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Í vetur höfum við orðið mjög vör við hversu erfið og hættuleg íslensk náttúra getur reynst eins og hún er gjöful oft og tíðum. Nú tel ég mjög mikilvægt að við í þinginu sendum héðan þau skilaboð þegar þinghald er að hefjast að nýju eftir áramót að þingið sé meðvitað um þá miklu þörf sem er fyrir uppbyggingu innviða um allt land. Það var ánægjulegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra og svo aftur hæstv. forsætisráðherra áðan tala um að til stæði að gera átak í uppbyggingu snjóflóðavarna en miklu meira þarf til. Það þarf uppbyggingu raflína, virkjana, vega, fjarskipta og hinnar ýmsu mikilvægu þjónustu ríkisins, uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu til að mynda um Ísland allt. Það sætir raunar furðu að nú þegar útgjöld ríkisins hafa aukist um helming á örfáum árum skuli ekki hafa átt sér stað meiri fjárfesting í innviðum landsins, en það er vegna þess að við búum hér við kerfisstjórn með þeim afleiðingum sem ég hef lýst áður en þó með þeim hætti að pólitískt séð virðist einn flokkur í ríkisstjórninni, Vinstri græn, geta farið sínu fram. Hann gerir það og nær í gegn hinum ýmsu furðumálum.

Nýjasta mál ríkisstjórnarinnar, og þar af leiðandi þá Vinstri grænna sem má heita að sé mjög pólitískt, eru áform um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Af nafninu að dæma kann þetta að hljóma vel en eins og svo oft er þegar Vinstrihreyfingin – grænt framboð kynnir áform sín eru þeim gefin góð nöfn en þegar betur er að gáð geta þau reynst varasöm. Og ég er svolítið hræddur um að það sé eitt og annað sem þurfi að skoða vel hvað varðar þennan áformaða þjóðgarð og ekki skrýtið að íbúar víða um land og ekki hvað síst sveitarstjórnarmenn hafi lýst miklum áhyggjum af þessum áformum. Það er nauðsynlegt fyrir okkur í þinginu að grípa þarna inn í því að hættan er auðvitað sú, þótt ekki væri nema í ljósi reynslunnar, að þarna sé verið að búa til enn eitt tækið til að draga úr lýðræðislegu valdi kjósenda og færa það til einhverra stofnana sem eru þá undir Vinstri grænni stjórn á einn eða annan hátt.

Til að mynda höfum við séð þessa þróun með önnur göfug áform, þ.e. rammaáætlun sem átti að vera til þess fallin að leysa úr þeim vanda sem óhjákvæmilega kemur upp þegar þarf að meta annars vegar virkjunarkosti og hins vegar önnur náttúrugæði. Þar voru allir sammála um að finna þyrfti leið til að gera þetta á sem skynsamlegastan hátt, komast að sem skynsamlegastri niðurstöðu í hverju tilviki fyrir sig. En hver hefur svo raunin orðið? Þetta fyrirkomulag hefur verið misnotað sem leið til að koma í veg fyrir nánast allar framkvæmdir og núna jafnvel eru þau áform sem fóru algjörlega vandræðalaust í gegnum þetta ferli stöðvuð á hinum ýmsu stigum kerfisins. Því er rétt að hafa varann á þegar lýst er áformum eins og þessum miðhálendisþjóðgarði þó að ég haldi að almennt séð sé samstaða um það meðal ekki bara þingmanna heldur Íslendinga nánast allra hversu mikilvægt það er að vernda hina einstöku náttúru okkar. Liður í því að vernda náttúruna, ekki bara náttúru Íslands heldur náttúru heimsins, er að framleiða orku með þeim umhverfisvæna hætti sem við getum gert á Íslandi. Það sætir furðu að fólk sem talar hvað mest um losun gróðurhúsalofttegunda og boðar jafnvel heimsendi innan fáeinna ára af þeim sökum skuli leggjast gegn því að við nýtum hér þá hreinu orku sem við getum framleitt á Íslandi.

Á öðrum sviðum er ýmist lítið að gerast hvað varðar áform um uppbyggingu innviða eða áformin svo óljós og taka svo stöðugum og síendurteknum breytingum að það er nánast ómögulegt að átta sig á því hvað stjórnvöld ætla að gera og hvort þau ætla að láta verða af einhverjum framkvæmdum yfir höfuð. Þá er ég ekki hvað síst að tala um samgöngumálin því að samgönguáætlun er búin að vera í lausu lofti og síbreytileg frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Nú er flugstefnan meira að segja innan samgönguáætlunar orðin sérstakt áhyggjuefni, sérstaklega staða Akureyrar og þá hvernig virðist vera gert ráð fyrir því að draga úr mikilvægi Akureyrarflugvallar. Það birtist reyndar líka í því að stjórnvöld hættu að nýta flugþróunarsjóðinn sem var ekki hvað síst til þess hugsaður að byggja upp nýtingu flugvallarins á Akureyri og gáfu það út að sjóðurinn yrði hugsanlega nýttur síðar þegar tilefni skapaðist til. Ef ekki er tilefni til þess núna veit ég ekki hvenær það kemur.

Á höfuðborgarsvæðinu sameinast þetta tvennt svo, annars vegar samgöngur á landi og vandinn með þær og samgöngur í lofti, svo á versta mögulega hátt. Borgarstjórinn í Reykjavík kemst upp með það að kynna áform um að Reykjavíkurflugvöllur verði fjarlægður úr Vatnsmýrinni, úr Reykjavík, og jafnframt að ríkið muni standa að þessu með honum og borgarstjórninni og lagningu borgarlínu, verkefnis sem enginn ráðherra í ríkisstjórninni hefur getað svarað hvað þýði og út á hvað gangi. Hann hefur eingöngu getað sagt að þetta muni líklega kostar töluvert en menn ætli að finna leiðir til að fjármagna það og þá með einhvers konar gjaldtöku af almenningi.

Þetta er því miður afleiðing þess að sitja uppi með kerfisstjórn þegar kerfið fær að ráða og af stað fara verkefni eins og þessi borgarlína sem mun auðvitað kosta margfalt meira en menn hafa gert ráð fyrir, verða miklu erfiðari og dýrari í framkvæmd, svo ekki sé minnst á reksturinn sem fylgir í kjölfarið. Það er búið að flækja ríkisstjórnina í þessa vitleysu eins og svo margar aðrar.

Hvað fá menn svo á móti? Jú, það á að ráðast í einhver verkefni í sveitarfélögunum í kringum Reykjavík sem til stóð í langflestum tilvikum að klára fyrir löngu, þó ekki Sundabrautina nema hugsanlega einhvern stubb af henni.

Ekki er nú stöðugleikinn og framtíðarsýnin meiri í heilbrigðismálunum. Það er reyndar örugglega framtíðarsýn í huga heilbrigðisráðherrans og við höfum séð ýmsar vísbendingar um hver sú sýn er. Hún er sú að koma á sósíalísku heilbrigðiskerfi á Íslandi en á meðan unnið er að því og allar ákvarðanir teknar út frá því markmiði líður heilbrigðiskerfið fyrir.

Það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan, það er búið að auka framlög til heilbrigðismála gríðarlega mikið á undanförnum árum. Allmargar ríkisstjórnir í röð hafa aukið verulega við framlög til heilbrigðismála, en fá menn það fyrir þessi stórauknu framlög sem gera hefði mátt ráð fyrir? Nei, því miður, vegna þess að menn huga ekki að því að laga kerfið. Kerfið fær að stjórna sér sjálft í stað þess að teknar séu skynsamlegar, lýðræðislegar ákvarðanir um að laga heilbrigðiskerfið og fá meira fyrir fjármagnið þannig að það nýtist betur fyrir sjúklinga og fyrir starfsmenn heilbrigðiskerfisins um allt land.

Við í þingflokki Miðflokksins munum á þessu þingi kynna afrakstur mikillar vinnu sem við höfum lagt í við að takast á við báknið, spara fyrir ríkið og minnka báknið en um leið tryggja betri þjónustu og aukin réttindi borgaranna. Við munum gera það með þeim hætti að það sé til þess fallið að auka við fjárfestingu í landinu. Besta lausnin við kulnun í hagkerfinu er að ráðast í jákvæða hvata sem setja fjárfestingu af stað af krafti og af því leiðir uppbygging að hluta til hjá ríkinu og að hluta til hjá einkaaðilum.

Við munum líka skilgreina hvernig ríkið getur farið betur með það fjármagn sem það hefur, nýtt það betur, ekki hvað síst í heilbrigðiskerfinu, svoleiðis að takast megi að byggja upp innviði, hvort sem það eru raflínur, heilbrigðisþjónusta eða hvað sem er þar á milli um allt land og að skattgreiðendur um allt land fái sem mest fyrir sitt fjármagn.

Ég vona að þessar tillögur muni hljóta brautargengi á Alþingi með þessari ríkisstjórn um eflingu Alþingis, eins og hún kallar sig, en (Forseti hringir.) a.m.k. munu liggja fyrir lausnir sem við getum rætt og nýtast henni vonandi. Ég hefði viljað ræða fjölmargt annað, herra forseti, en ég geri það í framhaldinu næstu daga.