150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst til að reyna að svara hratt spurningunni um hvað ég sjái fyrir mér á hálendinu þá sé ég fyrir mér að vel fari á því að friða þar margt til viðbótar við það sem þegar er friðað og jafnvel stofna nýja þjóðgarða (RBB: Gott.)því að mjög margt er á hálendi Íslands og ég sé enga ástæðu til að efast um að allir þingmenn séu sammála um að margt á hálendi Íslands er stórkostlegt. En hálendið — þetta stór hluti landsins, miðja landsins — getur samt ekki verið algjörlega laust við til að mynda virkjanir eða flutningslínur raforku, enda er það það ekki í dag. Núna þegar fyrir liggur að við þurfum að leggja okkar af mörkum í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda og nýta hina umhverfisvænu orku okkar á Íslandi og tengja hana betur við byggðir landsins með öruggari hætti, getur í einhverjum tilvikum þurft að fara eitthvað inn á hálendið en þá á að sjálfsögðu að gera það með þeim hætti að það valdi eins litlu raski og mögulegt er.

Tíminn er búinn, herra forseti, og ég get ekki einu sinni byrjað að ræða borgarlínuna og svar mitt varðandi hana. (Forseti hringir.) En það verða tækifæri til þess fyrir okkur síðar.