150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir þetta svar. Mjög skýrt og einmitt verið að horfa til framtíðar. Það er ekki lengur hægt að líta fram hjá ákalli nýsköpunar- og sprotafyrirtæki um að gera gjaldmiðilsumhverfið betra fyrir þau. Það er í beinu samhengi við rekstur þeirra og möguleika til þess einfaldlega að lifa af á næstu misserum og árum hér heima.

Það er annað og gríðarlega mikilvægt mál sem hv. þingmaður snerti líka á í sinni ræðu. Það eru loftslagsmálin. Mig langar að vita hvort hann deili að vissu leyti með mér þeim áhyggjum sem koma upp þegar maður horfir á stjórnarflokkana tala um umhverfismálin. Við sjáum að það eru mismunandi áherslur varðandi losunarmálin, t.d. hvort við eigum að miða við 40% eins og Evrópusambandið gerir. Ég veit að innan stjórnarflokkanna, ég heyrði það bara síðast í dag, eru sumir sem telja að við eigum bara að miða við 29% losun. Ég spyr hvort þingmaðurinn deili þeim áhyggjum að það sé ekki nægilega mikil samstaða — og þá reyndar ekki nægilega mikil samstaða með m.a. umhverfisráðherra — til að fylgja eftir áformum varðandi baráttuna sem við þurfum öll að fara í varðandi loftslagsbreytingar.