150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:44]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Íslensk stjórnmál eru eins og veðráttan hérna, rysjótt. Hver veit nema kosningar séu nær en við reiknum með en samt sem áður er býsna stutt í þær. Og ríkisstjórnin er búin að sýna á spilin. Já, við þurfum að byggja upp menntun og helst byggja á þekkingu og styrkja bara gildin okkar. En við þurfum líka að rækta fyrirtækin. Ég lagði fram mál í haust sem var hugsað til að bæta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þ.e. fyrirtækja sem eru með undir 49 starfsmenn. Við þurfum meiri fjölbreytni. Við eigum að hætta að byggja á fáum stoðum sem geta reynst kerfislega mjög dýrar ef þær riða til falls. Meðal þess sem er í þessari þingsályktunartillögu minni er t.d. að lækka tryggingagjald á þessi fyrirtæki umfram það sem við fyrirhugum núna almennt að gera.