150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[18:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. „Gott er að hafa gler í skó þá gengið er í kletta.“ Þvílík öfugmæli að ég sé á móti einkaframtakinu. Ég tók eftir því að Miðflokkurinn greiddi hins vegar atkvæði gegn því þegar við vildum einmitt gefa fólki tækifæri til að njóta krafta sinna og iðnaðarráðherra mælti fyrir frumvarpi um að leggja af leyfisveitingar til að selja notaða bíla. Hvers vegna er verið að gera fólki eitthvað erfitt fyrir að fara á námskeið og sækja próf o.s.frv., ef menn meina eitthvað með því að fólk eigi að fá að njóta krafta sinna og gera það sem það langar til að gera og finna kröftum sínum viðnám? Í tíð Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisráðuneytinu buðum við út nokkrar heilsugæslustöðvar með frábærum árangri. Takið eftir því hvað hefur gerst á heilsugæslustöðvastiginu á höfuðborgarsvæðinu eftir að við fórum að láta fjármagn fylgja sjúklingum og gerðum engan mun á því hvort menn væru með einkarekstur eða rekstur undir stjórn hins opinbera á heilsugæslustöðvum. (Forseti hringir.) Það kom meiri háttar hreyfing á mál og þjónustustigið batnaði, biðlistar styttust, þannig að við erum auðvitað bara með langan lista af málum (Forseti hringir.) um að við trúum á einkaframtakið.