150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[18:40]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa mjög svo ágætu ræðu þar sem hún kom einmitt sérstaklega vel inn á mikilvægi þess að við gerum endanlega upp öll hrunmálin og lærum af reynslunni, gerum betur og fáum nýja stjórnarskrá. Hv. þingmaður kom líka ágætlega inn á margt annað í ræðu sinni. Eitt af því sem hv. þingmaður talaði mikið um var spilling og traust, bæði á þinginu og samfélaginu. Mig langar því, herra forseti, að velta því aðeins upp og vonandi fá svör frá hv. þingmanni um hvernig hv. þingmaður sjái fyrir sér að ný stjórnarskrá geti haft áhrif á þá þætti sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Hversu mikilvægt telur hv. þingmaður að nýrri stjórnarskrá verði komið á til að taka á þessum atriðum, spillingu og trausti í samfélaginu?