150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Af því að hv. þingmaður nefnir lofræðu mína um störf þessarar ríkisstjórnar þá hefur hv. þingmaður greinilega hætt að hlusta eftir fyrstu mínútuna hjá mér. (Gripið fram í.) Það er vissulega rétt að eitthvað hefur verið rétt gert, annað væri nú í allri þessari útgjaldaaukningu. En það er rétt, ég hef gagnrýnt hvernig útgjaldaaukningunni hefur verið háttað, ekki hvað síst, en auðvitað líka að hún sé allt of mikil og standist ekki til lengdar efnahagslegar forsendur ríkisfjármálanna. Það er alltaf að koma betur og betur á daginn. Það er tekið að halla verulega undan. Ríkissjóður er þegar kominn í halla þrátt fyrir að árið 2019 hafi að mörgu leyti í sögulegu samhengi verið mjög gott ár.

Það er staðreynd máls í fyrsta lagi að það er allt of lítil opinber fjárfesting. Það þýðir að ekki er verið að bjóða út nægilega mikið af verkefnum núna þegar tekið er að hægja á. Við hefðum þurft að eiga í handraðanum talsverðan stabba af opinberum framkvæmdum strax á síðasta ári til þess að mæta þeirri kólnun sem er augljós t.d. í byggingargeiranum og við sjáum hana líka að sama skapi í ferðaþjónustu sem fór í gegnum mikinn samdrátt á síðasta ári og árið í ár verður í besta falli áframhaldandi aðlögun. Þótt ekki sé spáð miklum samdrætti er heldur ekki spáð neinum vexti. Það vantar verkefni til að örva hagkerfið. Þau verkefni skortir hjá þessari ríkisstjórn.

Þegar talað er um aukin útgjöld til heilbrigðismála þá er rétt hjá hv. þingmanni að vissulega hafa útgjöld til hins opinbera heilbrigðiskerfis verið aukin. Þau hafa reyndar verið aukin hlutfallslega minna til heilbrigðismála en fjölmargra annarra málaflokka þannig að af nógu er að taka ef leita ætti að hagræðingartækifærum í ríkisrekstri. En spurningin er líka: Hvaða árangur hefur hlotist af þessari útgjaldaaukningu í heilbrigðismálum? Aðgerðum samkvæmt samantekt landlæknis hefur fækkað um fimmtung á starfstíma þessarar ríkisstjórnar. Biðlistarnir eru alveg jafn langir og það bólar ekkert á lausn á helsta vandamálinu sem búið er að tala um í mörg ár og snýr að hjúkrunarrýmum fyrir eldra fólk. Það er kjarni fráflæðisvanda Landspítalans. (Forseti hringir.) Það er ekkert að gerast í því og það er ekkert á sjóndeildarhringnum hjá þessari ríkisstjórn hvað þau mál varðar.