150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[20:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á frumvarp mitt um aukið aðhaldshlutverk loftslagsráðs sem ég reikna meira að segja með að verði jafnvel á dagskrá á morgun þannig að við getum tekið þessa umræðu enn betur þegar þar að kemur. Hugmyndin er í sjálfu sér einföld, hún er nánast afrituð úr lögum um opinber fjármál þar sem fjármálaráð hefur það skýra og lögbundna hlutverk að rýna fjármálaáætlun sérhverrar ríkisstjórnar þegar hún kemur fram og skila áliti sínu til Alþingis svo Alþingi geti betur rækt aðhaldshlutverk sitt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Eftir á að hyggja hefðum við kannski átt að fatta þetta þegar við samþykktum lög um loftslagsráð af því að mér finnst þetta liggja svo beint við. Það að loftslagsráð hafi einhvern veginn veikara hlutverk gagnvart grundvallarstefnumörkun hins opinbera en fjármálaráð hefur í jafn veigamiklu máli finnst mér ekki virka eins og hlutirnir eiga að virka árið 2020. Hvaða atriði gæti loftslagsráð rýnt með þessum hætti? Í frumvarpinu legg ég bara til að það sé aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum þegar hún er lögð fram og þá sérstaklega grunnmælikvarðarnir á árangur, annars vegar hvort fjármagnið sem sé áætlað til áætlunarinnar sé raunhæft og hins vegar hvort áætlanir ráðherrans um samdrátt í losun á grundvelli áætlunarinnar standist. Á þessu væri hægt að taka umræðu um aðgerðaáætlun sérhverrar ríkisstjórnar á allt öðrum forsendum (Forseti hringir.) en í dag þar sem hver túlkar hana með sínu nefi.