150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[14:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta mál fram. Ég tel að það sé algerlega til fyrirmyndar af því að við þurfum að samræma það hvernig við komum fram við fólk á flótta óháð því hvernig það kemur til landsins. Mig langaði aðeins að spyrja hvort aldrei hafi komið til álita í vinnunni við þetta mál að koma á einhverri þjónustu Fjölmenningarseturs við þá sem enn hafa ekki fengið stöðu flóttamanns eða sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd; hvort sá hópur eigi enn að vera úti í kuldanum þegar kemur að mannúðlegri meðferð.

Það er einn þáttur sem ég hef sérstaklega í huga hér og hann varðar bráðabirgðaatvinnuleyfi fyrir þá sem eru að bíða. Af því að atvinnuleyfi og Vinnumálastofnun er á málefnasviði hæstv. ráðherra veltir maður fyrir sér hvort til greina komi, að mati ráðherra, að Vinnumálastofnun hraði umsóknum um bráðabirgðaatvinnuleyfi þegar um er að ræða einstakling sem er að bíða niðurstöðu mála sinna. Oftar en ekki hafa einstaklingarnir þurft að reiða fram mikið fé til þess að sækja um bráðabirgðaatvinnuleyfi, fé sem þeir hafa ekki. Og þegar sex mánuðir eru liðnir og enn er ekki búið að afgreiða bráðabirgðaleyfið er vinnuveitandinn verðandi löngu búinn að ráða einhvern annan í starfið, enda ekki um mjög sérhæft starf að ræða þar sem um er að ræða tiltölulega óþekkta einstaklinga.

Mig langar bara að fá aðeins að heyra hvort þeir sem eru að bíða, umsækjendur um alþjóðlega vernd, geti mögulega fengið einhverja áheyrn þarna inni.