150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

skaðabótalög.

430. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum (launaþróun og gjafsókn). Flutningsmaður auk mín er Inga Sæland.

Í 1. gr. segir:

„Í stað orðsins „lánskjaravísitölu“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: launavísitölu.“

Í 2. gr. segir að 29. gr. laganna orðist svo:

„Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum eru miðaðar við launavísitölu eins og hún var 1. júlí 1993 (131,3) og taka þær sömu breytingum og mælt er fyrir um í 15. gr.“

Í 3. gr. segir að á eftir 27. gr. laganna komi ný grein undir fyrirsögninni Gjafsókn. Þar segir:

„Ríkissjóður skal veita gjafsókn þeim sem höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna líkamstjóns eða höfða mál til að krefjast greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns án þess að skilyrðum 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sé fullnægt.“

Í 4. gr. segir:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í kaflanum Skaðabætur í samræmi við launaþróun segir:

„Skaðabótalögin miða þróun bótafjárhæða við lánskjaravísitölu. Lánskjaravísitalan telst til þeirra viðmiða sem lítið eru notuð í útreikningi á verðlagi, vísitalan er aðeins notuð til að ákvarða fjárhæðir skaðabóta. Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið er varðar þau viðmið sem notuð eru til mælinga á verðlagi þá verður að teljast brýn þörf á að lögum um skaðabætur verði breytt svo að fjárhæðir þeirra taki breytingum eftir mælikvörðum sem almennt eru notaðir nú við mat á verðlagi. Þar koma helst tveir mælikvarðar til skoðunar, annars vegar vísitala neysluverðs og hins vegar launavísitala. Skaðabætur miða að því að gera tjónþola eins settan og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og lög miðast við árslaun að þessu leyti, samanber 1. mgr. 6. gr. og 7. gr. skaðabótalaga. Þegar örorka tjónþola er metin til frambúðar er aðallega horft til þess hvaða áhrif örorka hefur á getu hans til að afla tekna. Því er ástæða til að miða við launavísitölu þegar fjárhæðir skaðabóta eru ákvarðaðar til frambúðar. Þess ber að geta að hætt var að nota lánskjaravísitölu í apríl 1995 til þess að verðtryggja nýjar fjárskuldbindingar, en vísitala neysluverðs til verðtryggingar var notuð í staðinn. Lánskjaravísitalan stóð í 3.282 stigum við gildistöku skaðabótalaga en stendur nú í 9.290 stigum. Fjárhæðir skaðabótalaga hafa því hækkað um 183% frá gildistöku þeirra og núna er lágmarksviðmið árslauna, samanber 3. mgr. 7. gr. laganna, 3.396.709 kr. og fyrir 74 ára og eldri 1.132.236 kr. Sú fjárhæð er talsvert lægri en lægstu launakjör á almennum vinnumarkaði. Eftir því sem laun hafa hækkað umfram verðlag hefur dregið úr þeirri vernd sem skaðabótalögin veita þeim sem verða fyrir líkamstjóni en hafa ekki stundað fulla atvinnu á síðustu þremur árum fyrir slysdag. Þetta eru m.a. ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar.

Meðaltal heildartekna árið 1993 var 1.236.000 kr. en 6.641.000. kr. árið 2018. Þessir hópar njóta því ekki sömu verndar og skaðabótalögin tryggðu þeim við gildistöku. Launavísitalan stóð í 131,3 stigum við gildistöku skaðabótalaga en var í 695,2 stigum í september 2019 og hefur því hækkað um 529%. Ef fjárhæðir laganna eru miðaðar við núverandi launavísitölu þá myndi lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. hækka fyrir 66 ára og yngri úr 3.396.709 kr. í 6.353.694 kr. Fyrir 74 ára og eldri myndi lágmarksviðmið hækka úr 1.132.927 kr. í 2.117.898 kr. Um er að ræða 87% hækkun þvert á þau lágmarksviðmið sem fram koma í töflu 3. mgr. 7. gr. laganna. Með breytingu þessari yrðu ákvæði skaðabótalaganna til þess fallin að veita þeim sem hafa lágar tekjur sambærilega vernd og þau gerðu við gildistöku þeirra.“

Í kaflanum Gjafsókn segir:

„Það er einstaklingum oft þung byrði að höfða dómsmál vegna líkamstjóns sem þeir hafa orðið fyrir. Þeir fallast því gjarnan frekar á þær bætur sem tryggingafélög bjóða að fyrra bragði og gefa eftir þann rétt sem þeir þó telja sig eiga. Til þess að stemma stigu við þessu vandamáli sem snýr að tekjulægri einstaklingum og þar með bæta réttaröryggi þeirra sem hafa orðið fyrir líkamstjóni er lagt til að þeir einstaklingar eigi kost á því að höfða mál vegna viðurkenningar á skaðabótaskyldu eða greiðslu skaðabóta sem rekja má til líkamstjóns, óháð fjárhagsstöðu, með því að rýmka rétt þeirra til gjafsóknar. Framangreint samræmist 3. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.“

Með þessu frumvarpi er stigið lítið skref í átt að því að leiðrétta skaðabótalögin. Skaðabótalögin eru orðin mjög gömul, stagbætt og barn síns tíma. Það er löngu orðið tímabært að taka þau til heildrænnar endurskoðunar. En það sem þarf að gera nú strax er að hafa fjárhæðirnar réttar, að ekki sé verið að hlunnfara skólafólk eða eldri borgara, eða aðra þá sem eru ekki með tekjur, um réttinn til að fá rétt metnar skaðabætur fyrir sitt tjón.

Ef við horfum á skaðabótalögin eins og þau voru sett upp hvað varðar 66 ára og yngri er miðað við 1.200.000 kr. í árstekjur, það eru 100.000 kr. á mánuði. Það sér það hver einstaklingur að þetta eru alveg fáránlegar tölur. En það sem er enn fáránlegra er að við 74 ára aldur er miðað við 400.000 kr. árstekjur, það eru 30.000 kr. á mánuði. Það segir okkur að það er eitthvað að og það þarf að gera eitthvað og það þarf að gera eitthvað strax.

Annað sem er óþolandi í lögunum í dag er það að einstaklingar sem lenda í tjóni mega búa sig undir langa bið eftir því að fá bætur. Ferlið getur tekið frá tveimur, þremur árum og allt upp í 10–15 ár. Það verður að segjast eins og er að fyrir venjulegt launafólk er að lenda í slæmu slysi, hvort sem það er í vinnuslysi eða umferðarslysi, eiginlega ávísun á fátækt, ávísun á að lenda inni í kerfi Tryggingastofnunar, kerfi örorkubóta. Tryggingafélögin eru gífurlega fjársterk, þau hafa næga peninga. Þau hafa lögfræðinga og lækna og þau geta þvælt málin fram og til baka svo til endalaust. Það er óþolandi í þessu samhengi að það fólk sem lendir í þessu á eiginlega ekki nokkurn rétt á að fá gjafsókn til að berjast við þessi fjársterku félög. Það hafa verið sett lög um að fólk eigi rétt á bótum fyrir líkamstjón og að lenda í umferðarslysi og verða fyrir líkamstjóni er gífurlegt áfall. Í sjálfu sér þyrfti fólk áfallahjálp. En hvað skeður? Það er ekki fyrsta áfallið. Áfallið kemur eftir á þegar þú áttar þig á því að þú ert kominn í vítahring tryggingafélaga. Þú ert kominn í vítahring við að berjast fyrir bótum þér til handa og þér verður stillt upp við vegg. Fólki er kannski boðið 10–20% af því sem það átt rétt á. Margir taka því vegna þess að þeir fá ekki gjafsókn og geta ekki barist við tryggingafélögin.

Það er ömurlegt til þess að vita að á sama tíma erum við með svokallaðan bótasjóð, eða vátryggingasjóð, og inn í hann dæla tryggingafélögin peningum. Tjónþoli, sá sem verður fyrir tjóni — það eru kannski settar 100 millj. kr. inn í þennan sjóð á kennitölu viðkomandi. Síðan er samið og hann fær kannski 20% af því, það fara 20 milljónir út, 80 verða eftir. Þessar 80 milljónir verða að fé án hirðis, eins og Pétur Blöndal heitinn sagði á sínum tíma, til að ávaxta gróða tryggingafélaganna. Það sem er furðulegast er að þetta hefur viðgengist í fjölda ára, frá því að skaðabótalög urðu upphaflega til. Það sem er enn furðulegra er að enginn hefur gert neitt í því. Á Norðurlöndunum og annars staðar er það bara talið siðferðislega rétt að gera upp þessa sjóði á fimm til tíu ára fresti. Í ljósi þess sem gerst hefur er óskiljanlegt að ekki skuli vera búið að gera neitt í þessum málum. Horfum aftur í tímann til bankahrunsins þegar Sjóvá, bótasjóður þess tryggingafélags, hvarf úr landi. Hann fór alla leið til Tortóla, endaði sennilega sem lúxusíbúð í Kína. Síðan kom hann, held ég, sem veð í botninum á sundlauginni á Álftanesi. Það voru hans örlög. Þarna var verið að „gambla“ með milljarða, tjónabætur einstaklinga sem fengu ekki nema brot af þeim.

Það er líka stórfurðulegt í öllu þessu samhengi, í skaðabótarétti og alls staðar í þessu kerfi, að tryggingafélögin virðast geta keypt hvað sem er. Þau geta keypt þá niðurstöðu að viðkomandi hafi aldrei verið í ákveðnum bíl, heldur hafi hann verið í hinum bílum og þess vegna sé um að ræða lágörorkuáverka. Svo þegar kemur í ljós að þetta var rangt, að viðkomandi var í bílnum sem var eyðilagður, gjörónýtur, þá er sagt: Það skiptir engu máli, þetta er jafnt. Það er hægt að segja: Þetta var bara sýking eða eitthvað. Svo kemur í ljós í skýrslum að það var aldrei sýking til staðar en tjónið er orðið vegna þess að viðkomandi einstaklingur þarf að sanna lygina, sanna að það sé lygi sem tryggingafélögin halda fram. Það tekur fjölda ára og það sem er furðulegast við þetta er að þarna er veikt fólk að reyna að berjast við þetta. Jú, það er kannski með lögfræðing en það fær ekki gjafsókn. Maður sækir um gjafsókn til dómsmálaráðuneytisins. Þar er sagt: Nei, nei. Þar er sagt að þú fáir ekki gjafsókn vegna þess að um sýkingu hafi verið að ræða. Þar er sagt: Þetta var bara of lítið vegna þess að þú varst í hinum bílnum eða eitthvað. Og þá er það bara tekið trúanlegt.

Ég skoðaði það á sínum tíma hverjir væru í gjafsóknarnefnd og er það ekki furðulegt að menn hafi verið í gjafsóknarnefnd á sama tíma og þeir voru stjórnarmenn í t.d. Exista sem var í eigu VÍS? Er það eðlilegt? Svona er kerfið byggt upp. Ég segi bara: Í guðanna bænum, á meðan þetta er svona, farið varlega þarna úti, bæði í umferðinni og í vinnunni og alls staðar annars staðar. Þið haldið að þið séuð tryggð, borgið hæstu tryggingagjöld í heimi en eruð þið tryggð, fáið þið tjón bætt? Mjög ólíklega. Ekki nema kannski að hluta til. Það er með ólíkindum hvernig hægt er að leika hlutina. Ég segi fyrir mitt leyti: Hvernig í ósköpunum, eins og dæmi hafa verið um, var hægt að setja tryggingafélögin á bætur Tryggingastofnunar ríkisins? Ég spurði mig að þessu og ég fór að pæla í því hvernig þetta hefði getað komið til. Eina skýringin sem ég fékk úr því var að þau hefðu einhvern tíma verið metin fjársjúk og ættu þess vegna rétt á örorkubótum. Ég uppgötvaði þetta kannski mest af því að hafa tekið við 3,2 milljónum fyrir tímabundið tekjutjón. Ég hefði aldrei tekið við þeim peningum ef ég hefði vitað það sem ég vissi tveimur árum seinna. Um 1.200.000 kr. fóru í skatt. Nær milljón til Tryggingastofnunar og svo kom tryggingafélagið og tók líka milljón vegna þess að Tryggingastofnun hafði borgað mér þessa milljón. Bæði tryggingastofnunin og tryggingafélagið tóku af mér milljón vegna sömu milljónar sem Tryggingastofnun hafði borgað mér. Þá var ég kominn í núll. En viti menn: Þetta dugði ekki til. Ég var titlaður sem hátekjumaður á skattskýrslu. Missti barnabætur, vaxtabætur, þannig að ég var kominn 500–600 þús. kr. í mínus. Hvað átti ég að gera? Kæra þetta eftir á? Nei, vegna þess að þegar ég uppgötvaði þetta var það orðið of seint, ég gat ekki kært þetta. Ég fór með þetta mál alla leið í Hæstarétt og það furðulegasta var að Hæstiréttur sagði: Þetta er allt í lagi. Lögin eru bara svona. Ég segi bara: Hver bjó þessi lög til? Var það Alþingi? Og ef Alþingi gerði það, á hvers vegum var það? Ég spyr: Hvernig í ósköpunum getur þessi stofnun búið til lög sem eru sniðin fyrir ákveðin félög svo að þau græði nógu mikið? Það hlýtur að segja okkur að það er eitthvað mikið meira en lítið að þessu kerfi.

Það er alveg nauðsynlegt að taka þessi mál algerlega til endurskoðunar en koma þessari breytingu strax inn í kerfið. Við hljótum líka að spyrja okkur: Af hverju hefur dómsmálaráðuneytið, dómsmálaráðherra eftir dómsmálaráðherra, ekki uppfært tölurnar í þessu? Hvers vegna í ósköpunum er kerfið látið vera þannig að fjárhæðir fylgi ekki launum? Ég fór að hugsa: Er það tilviljun? Ég segi nei. Þetta er gatslitið kerfi. Svo förum við yfir í Tryggingastofnunarkerfið. Það er líka gatslitið. Svo förum við yfir í heilbrigðiskerfið og það er líka svona. Það er verið að bæta hér og þar en þetta míglekur allt. Og hverjir eru það alltaf sem blæða? Almenningur. Fólkið sem síst skyldi, fólkið sem þetta kerfi á að verja. Við erum að búa til lög og við borgum óhemjuupphæðir á hverju einasta ári til að tryggja okkur en einhverra hluta vegna, með alla sína peninga sem þau fá í gegnum þetta kerfi, tekst þessum félögum að verjast kröftuglega. Og hverjir aðstoða tryggingafélögin við að verjast svona kröftuglega? Jú, gjafsóknarnefnd sem er í dómsmálaráðuneytinu. Eigum við ekki að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum er ríkið með gjafsóknarnefnd í dómsmálaráðuneytinu sem er til þess að verjast því, liggur mér við að segja, að fólk fái ekki gjafsókn? Hvernig í ósköpunum getur gjafsóknarnefnd, sem er stödd þar, loks gefið gjafsókn þegar vitað er að málið er fyrnt? Maður hlýtur að spyrja sig: Til hvers er verið að gefa gjafsókn í máli sem er fyrnt? Þú ferð með það fyrir dómstóla og dómstólar segja: Nei, þú er búinn að vinna, þú ert búinn að fá gjafsókn og þú ert búinn að fá matið, það er búið að meta þig; það er búið að segja: Jú, það er þetta mikið að, þú átt að fá þetta mikinn miska og þetta mikla fjárhagslega örorku, þetta varð vegna þessa slyss — en þetta er búið að taka allt of langan tíma, málið er fyrnt. Maður hlýtur líka að spyrja sig hvernig í ósköpunum tryggingalæknir — tryggingafélagið fær hann til að meta tjónið, það borgar honum — getur labbað úr þeirri stofu sem hann er með úti í bæ inn á Landspítala, farið í sjúkrasögur, tekið upp úr þeim það sem hann vill og misnotað þær, jafnvel logið. Þegar maður fer með málið fyrir Persónuvernd, þarna eru persónuverndarlög brotin og allt saman, og maður fer með þetta alla leið til Hæstaréttar þá segir Hæstiréttur: Þetta er bara í lagi í þetta sinn. Ég segi fyrir mig, og við hljótum að vera sammála um það, að þessi lög vernda tryggingafélögin. Ég hélt að þessi lög væru skaðabótalög til að bæta fólki tjón vegna skaða. Nei, þetta virðast vera lög til að passa upp á að tryggingafélög þurfi ekki að borga skaðabætur.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta mikið lengra en það segir sig sjálft að það þarf að fara í gegnum þessi lög. Það þarf að endurskoða þau frá A til Ö og sjá til þess að börn sem slasast, börn sem við vitum að eiga bjarta framtíð, fái ekki bara 100.000 kr. á mánuði það sem eftir er ævinnar. Lágmarkslaun í landinu eru 300.000 kr. Við segjum við einstakling sem er orðinn 66 ára: Þú ert hvort sem er búinn að vera, 100.000 kr. eru alveg nóg fyrir þig. Lágmarkslaunin eru enn 300.000 kr. Hvers konar óvirðing er þetta? Hvernig í ósköpunum ætlum við að skýra þetta út fyrir nemum, þeim sem eru í námi, sem lenda í slysi? Þeir verða metnir með 100.000 kr. í mánaðartekjur, 1.200.000 kr. árstekjur. Á nemi sem er í námi í lögfræði eða læknisfræði að sætta sig við það ef hann verður fyrir alvarlegu líkamstjóni, og heilsa hans búin að vera, að hann hafi í mesta lagi 100.000 kr. á mánuði það sem eftir er ævinnar? Þetta er bara ávísun á fátækt. Það er verið að segja við þetta fólk: Þið skuluð bara lifa við fátækt. Það sem er merkilegt er að þessir einstaklingar eru t.d. tvítryggðir í bifreiðum, bæði sem ökumenn og líka tryggðir í bílnum, sérökumannstrygging og vegna tekjumissis, en það dugir ekki til. Það virðist ekkert duga til. Þess vegna spyr ég líka og þeirri spurningu þarf dómsmálaráðherra á hverjum tímaað svara: Hvers vegna í ósköpunum er ekkert gert í þessu? Ég mun reyna að krefjast þeirra svara.

Vonandi fær þetta mál einhvern framgang. Af fyrri reynslu er ég ekki ofurbjartsýnn á það og þá kemur bara í ljós hver ítökin eru og hvort ríkisstjórnin er hlynnt venjulegum borgurum þessa lands sem eiga rétt á skaðabótum og hafa borgað sínar tryggingar eða hvort hún er á bandi tryggingafélaganna og heldur áfram að rýra bæturnar svo að bótasjóður tryggingafélaganna bólgni út. Að lokum vísa ég málinu til allsherjar- og menntamálanefndar og vona að það fái þar góða umfjöllun.