150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

menningarsalur Suðurlands.

55. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég legg hér fram tillögu til þingsályktunar um menningarsal á Suðurlandi, sem hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að leita samninga við Sveitarfélagið Árborg um að ljúka gerð menningarsalar Suðurlands á Selfossi. Samningurinn taki gildi árið 2020 og verði frágangi salarins lokið eigi síðar en við árslok 2021.

Þessi þingsályktunartillaga var lögð fram á 149. löggjafarþingi, 290. mál. Þetta mál er búið að eiga sér langan aðdraganda. Það eru allt að því 30 ár síðan byggingu þessa salar í sjálfu sér lauk. Hann stendur sem hluti af Hótel Selfossi, óinnréttaður. Eins og fram kemur í greinargerðinni er gert ráð fyrir því að það að ljúka frágangi á þessum menningarsal muni kosta á bilinu 300–400 millj. kr. Það liggur auðvitað fyrir að það er ekki há upphæð ef tekið er mið af byggingu nýrra menningarhúsa sem hafa verið byggð víða um land, sem betur fer. En það vantar sárlega húsnæði á Suðurlandi til að hýsa þá miklu menningarstarfsemi sem þar er og við þingmenn Suðurkjördæmis, sem flytjum þessa tillögu, höfum margoft bent á það áður, bæði með flutningi þessarar tillögu og með framgöngu í nefndum, fjárlaganefnd. Verkefnið er nú komið á rekspöl og er komið inn á fimm ára fjármálaáætlun. Nú er mikilvægt fyrir okkur að síðustu skrefin í því að gera þetta verkefni að veruleika, eins og fram kemur í greinargerðinni, verði stigin á þessu ári þannig að við getum farið að hefja framkvæmdir. Þetta er mikilvægt menningarverkefni sem kallar á skjótar ákvarðanir. Í sjálfu sér kostar þetta auðvitað 300–400 milljónir eins og ég hef sagt áður en það er ekki stór upphæð í því samhengi sem slíkt menningarhús myndi kosta frá grunni.

Selfoss er orðinn má segja heimabær menningarinnar á Suðurlandi. Þar er gríðarlega öflugt menningarlíf og með því að ljúka þessum sal væri komið til móts við þá miklu þörf sem er ekki bara á Selfossi og í Árborg heldur líka í nágrannasveitarfélögunum sem sannarlega myndu nýta þá aðstöðu sem þarna yrði til boða.

Ég ætla ekki að hafa þetta í sjálfu sér lengra, virðulegur forseti. Flutningsmenn þessarar tillögu eru auk mín hv. þingmenn Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Karl Gauti Hjaltason, Birgir Þórarinsson og Oddný G. Harðardóttir.