150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi.

203. mál
[19:02]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru Guðmundur Ingi Kristinsson og Halla Signý Kristjánsdóttir. Með tillögu þessari er lagt til að Alþingi feli umhverfis- og auðlindaráðherra, í samvinnu við Umhverfisstofnun og hagsmunaaðila, að gera stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á landinu öllu. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um áætlunina fyrir 1. mars árið 2020.

Á Íslandi verpa þrjár tegundir gæsa, grágæs, heiðagæs og helsingi. Að auki eru tvær tegundir gæsa árvissir fargestir, blesgæs og margæs. Á síðustu áratugum hafa gæsastofnar á norðlægum slóðum stækkað mikið og er heiðagæsastofninn nú í sögulegu hámarki. Frá 1950 hefur sameiginlegur heiðagæsastofn Íslands og Grænlands tuttugufaldast og var ríflega 500.000 fuglar haustið 2015. Aukið fæðuframboð, einkum á ræktuðu landi, á þátt í að gæsastofninn hefur vaxið. Álftin er algengur varpfugl víða um land, bæði á láglendi og vel grónum svæðum með tjörnum og vötnum á hálendi. Stofninn hefur vaxið stöðugt í a.m.k. 30 ár og í janúar 2015 var talið að álftirnar væru ríflega 30.000.

Frá árinu 2013 hefur Ísland verið aðili að samningnum um vernd farfugla og votlendisfugla í Afríku og Evrasíu. Samningurinn kveður á um aðgerðir til verndar votlendisfuglum á viðkomustöðum þeirra og nær til fjölda fuglategunda sem verpa eða hafa áningarstað á Íslandi. Á grundvelli samningsins geta ríki ákveðið að vinna að því að stýra stofnstærðum fuglategunda sem valda skemmdum á uppskeru. AEWA hefur ráðist í gerð áætlana til að hafa áhrif á stærð gæsastofna í Evrópu, m.a. vegna heiðagæsar, grágæsar og helsingja. Árið 2012 var t.d. gerð áætlun um að minnka stærð Svalbarðastofns heiðagæsa í Danmörku og Noregi í samstarfi við Holland og Belgíu niður í u.þ.b. 60.000 fugla. Takmarkið náðist tveimur árum síðar. Markmið áætlunarinnar um Svalbarðastofninn er að viðhalda stofnstærðinni í 60.000 fuglum til að lágmarka skaða sem gæsirnar valda á uppskeru og gróðri í freðmýri án þess að gera út af við stofninn.

Ágangur álfta og gæsa veldur bændum fjárhagslegu tjóni en þessi vandi einskorðast þó ekki við Ísland. Árið 2016 kom út skýrsla á vegum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins um tjón af völdum álfta og gæsa árin 2014 og 2015. Á þessu tímabili gátu bændur tilkynnt rafrænt um tjón sitt í gegnum Bændatorgið. Niðurstaða skýrslunnar sýndi að tjón af völdum ágangs fugla var mest á túnum. Í flestum tilvikum var um að ræða fleiri en eina fuglategund sem ollu tjóni á tilteknu ræktarlandi. Fram kom að mun fleiri tjónatilkynningar bárust árið 2014 en árið eftir.

Í 12. gr. reglugerðar um almennan stuðning við landbúnað, nr. 1260/2018, er að finna heimild til að greiða stuðning samkvæmt 9. gr. vegna ágangs álfta og gæsa á ræktunarland bænda. Samkvæmt ákvæðinu ákveður framkvæmdanefnd búvörusamninga hvort nota eigi heimild til þessa stuðnings. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar má ætla að margir bændur hafi látið hjá líða að tilkynna um tjón því að lítið hafi áunnist síðustu ár í að fá tjón viðurkennt eða bætt eða að fá viðeigandi úrræði til að verjast ágangi. Flestir bændur notast við fælur til að verjast tjóni í ræktunarlöndum sínum. Reynslan sýnir að fuglarnir eru fljótir að venjast fælunum og því virka þær ekki sem skyldi. Því er ljóst að finna þarf langtímalausn til að stemma stigu við þessum vanda.

Flutningsmenn telja nauðsynlegt að á grundvelli framangreinds samnings verði gerð áætlun um stjórn og vernd álfta og gæsastofna á Íslandi í því skyni að minnka tjón bænda vegna ágangs álfta og gæsa. Í áætluninni þarf að tryggja vernd stofnanna. Til að tryggja að markmiðið með stjórnunar- og verndaráætluninni náist er nauðsynlegt að gagnasöfnun í málaflokknum verði bætt svo unnt verði að leggja mat á hvort þær aðgerðir sem farið verði í á grundvelli áætlunarinnar skili tilætluðum árangri.