150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að byrja á að lesa, með leyfi forseta, örstutt upp úr fréttatilkynningu á heimasíðu Stjórnarráðsins í ljósi þeirrar umræðu og þeirra orða sem féllu áðan um heilbrigðiskerfið:

„Staðreyndir um heilbrigðisstofnanir og fjárveitingar síðustu ára:

Framlög ríkisins til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins jukust um 24% á árabilinu 2017–2020. Aukningin til Landspítala nam um 12% á sama tímabili, 8% til Sjúkrahússins á Akureyri og 10% að meðaltali til heilbrigðisstofnananna sex sem starfa um allt land. Staðhæfingar sem fram hafa komið í opinberum umræðum, m.a. um stórfelldan niðurskurð á Landspítala og heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, eiga ekki við rök að styðjast.“

Ég held að það sé nefnilega mikilvægt að við ræðum í þessum sal það ástand sem uppi er í heilbrigðiskerfinu og þá staðreynd að lausnin getur aldrei fundist í því að auka alltaf við fjármuni. Við hljótum að þurfa að horfa á það hvernig peningunum okkar er varið og hvernig kerfið okkar er uppbyggt.

Eitt af því sem hefur komið skýrt fram í umræðunni um heilbrigðismál er staða eldri borgara. Það er auðvitað hryllingur til þess að hugsa að fólk þurfi að liggja á göngum bráðamóttökunnar og að eldra fólk blokkeri, ef svo má að orði komast, rúm á bráðamóttökunni þegar við eigum að hafa betri og hagkvæmari lausnir fyrir nákvæmlega þann hóp. Þess vegna held ég að það sé alveg ljóst að við þurfum að gefa verulega í þegar kemur að heimaþjónustu til aldraðra því að þrátt fyrir það mikilvæga markmið okkar að byggja upp fleiri hjúkrunarheimili er það ekki eina lausnin. Ég leyfi mér að efast um að þeir sem eru þarna úti og kunna að þurfa einhverja þjónustu óski sér þess heitast að komast á hjúkrunarheimili. Ég held að fáir geri það fyrr en aðstæðurnar er orðnar mjög slæmar.

Það er alveg ljóst að við þurfum að taka okkur á þegar kemur að heimaþjónustu og þá finnst mér líka mjög mikilvægt að við tryggjum (Forseti hringir.) valfrelsi þeirra sem á þeirri þjónustu þurfa að halda.