150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson vék hér áðan að mælingum sem varða jöfnuð og tekjuskiptingu og þess háttar. Ég þarf einhverja frekari greiningu á ræðu hans til að átta mig á því nákvæmlega hvað hann var að fara. Ég kom bara inn í hana miðja þannig að ég ætla ekki að tjá mig um efni hennar en þakka honum þó fyrir að vekja máls á þessu. Það vakti athygli að nú fyrir jólin kom frétt frá Hagstofunni þar sem greint var frá því að þegar horft er til tekjuskiptingar væri jöfnuður hér meiri en í öllum löndum Evrópu, að Slóveníu og Slóvakíu undanskildum. Ísland er sem sagt þar í efstu röð og hefur verið um nokkurt skeið og hefur frekar bætt stöðu sína að þessu leyti, mælt á mælikvarða hins svokallaða Gini-stuðuls sem er ákveðin aðferð til þess að mæla misskiptingu eða jöfnuð í samfélögum og eins á annan mælikvarða sem er miðaður við tekjutíundir eða tekjubil. Báðar þessar niðurstöður sýndu sterka stöðu Íslands að þessu leyti.

Ég held að það sé mikilvægt að við höfum þetta í huga því að það gerist æðioft, bæði í þessum sal og annars staðar, að haldið er fram fullyrðingum annars vegar um það að hér sé misskipting að aukast, sem ekki er hægt að renna neinum stoðum undir með tölfræðilegum athugunum, og hins vegar að hér sé misskipting meiri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hafi hv. þm. Björn Leví Gunnarsson slíkar upplýsingar verðum við að skoða þær en þær stangast á við samræmdar mælingar sem Hagstofa Íslands og fleiri aðilar framkvæma.