150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

446. mál
[16:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði heilbrigðisráðherra vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Vinna við frumvarp þetta er framhald af vinnu sem hófst innan heilbrigðisráðuneytisins fyrir síðasta vorþing við að samræma löggjöf sem heyrir undir heilbrigðisráðherra nýjum persónuverndarlögum. Þetta er raunar vinna sem hefur staðið yfir í allnokkrum ráðuneytum í tilefni af þeim lagabálki.

Á síðasta vorþingi lagði ég sem heilbrigðisráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar í tengslum við umrædda vinnu sem hv. þingmenn sem áttu sæti í velferðarnefnd þekkja. Nú legg ég fram frumvarp sem er ætlað að ljúka þeirri yfirferð.

Undir málefnasvið heilbrigðisráðherra falla ýmis lög sem varða mikilvæg réttindi þar sem vinna þarf með persónuupplýsingar einstaklinga sem iðulega flokkast sem viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt skilgreiningu persónuverndarlaga. Slík vinnsla er oft og tíðum nauðsynleg svo viðkomandi stofnun geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Mikilvægt er að skýr lagaheimild búi að baki vinnslu persónuupplýsinga en með persónuupplýsingum er átt við sérhverjar upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann beint eða óbeint, t.d. með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu eða þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu eða erfðafræðilegu tilliti.

Þessu frumvarpi er ætlað að tryggja að til staðar sé skýr lagaheimild fyrir nauðsynlegri vinnslu persónuupplýsinga af hálfu stofnana sem heyra undir heilbrigðisráðherra.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi því sem nú er mælt fyrir eru lagðar til breytingar á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga, nr. 110/2000, þar sem ætlað samþykki hins skráða fyrir vinnslu persónuupplýsinga er fellt brott. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, þar sem embætti landlæknis eru veittar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Einnig eru lagðar til breytingar á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, þar sem tilteknum aðilum eru veittar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar í þeim tilgangi að verjast alvarlegum heilsufarsógnum. Þá er lögð til breyting á lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991, þar sem tilteknum aðilum er veitt heimild til vinnslu persónuupplýsinga til að tryggja gæði og öryggi líffæra sem ætluð eru til ígræðslu. Lögð er til breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994, þar sem Lyfjastofnun er veitt heimild til vinnslu á persónuupplýsingum til að uppfylla lögbundið hlutverk sitt, og einnig er lögð til breyting á lögum um lækningatæki, nr. 16/2001, þar sem Lyfjastofnun er veitt heimild til vinnslu persónuupplýsinga til að uppfylla lögbundið hlutverk sitt. Lögð er til breyting á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, þar sem heilbrigðisstofnunum er veitt heimild til aðgangs að gagnagrunni með upplýsingum um lyfjanotkun einstaklinga, og einnig er lögð til breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, þar sem heilbrigðisstofnunum er veitt heimild til vinnslu á persónuupplýsingum til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum.

Fumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda og bárust umsagnir frá embætti landlæknis og Lyfjastofnun. Efnislega var tekið tillit til þeirra athugasemda sem bárust. Einnig bárust ráðuneytinu erindi frá Landspítalanum um þörf fyrir breytingu á lögum vegna vinnslu heilbrigðisstofnana á viðkvæmum persónuupplýsingum en fyrst og fremst vegna hlutverks Landspítala við umsjón og ábyrgð með greiðslu kostnaðar vegna S-merktra og leyfisskyldra lyfja. Það var einnig tekið tillit til þessa erindis við gerð frumvarpsins og er gerð grein fyrir þeim þáttum samráðsins í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.