150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[16:37]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar eða skoðanir á málinu kannski öllu frekar. Fyrst og fremst þarf að skýra út að enginn dómari af því dómstigi sem málið féll á mun taka þátt í niðurstöðu þess í Endurupptökudómnum sjálfum. Þar eru þrír dómarar og ávallt verða þar tveir sem eru skipaðir og einn annar dómandi frá öðru dómstigi en málið féll á. Þarna er þess gætt að dómandi taki ekki þátt í afgreiðslu á beiðni um endurupptöku á uppkveðnum dómi af samdómara hans. Þetta er mjög mikilvægt og þarna er verið að gera þá breytingu að meiri hlutinn er frá skipuðum dómara og svo er einn embættisdómari sem kemur ekki frá því sama dómstigi. Ég tel verið að svara athugasemdum sem komu í nefndinni á fyrri stigum þessa máls.

Varðandi gjafsóknina sem ekki er sett hér inn er það þannig að oft er búið að veita gjafsókn í máli á fyrri stigum áður en það er komið fyrir Endurupptökudóm. Auðvitað má deila um hversu oft á að veita gjafsókn í hverju máli fyrir sig en síðan er aftur möguleiki að fá gjafsókn ef málið er endurupptekið og fá jákvætt svar fyrir Endurupptökudómi síðar, að fá þá gjafsókn í málinu að nýju. Menn geta fengið gjafsókn í málum á fyrri stigum og síðan ef óskað er eftir endurupptöku og jákvætt svar fæst fyrir Endurupptökudómi er aftur hægt að óska eftir gjafsókn í máli þegar málið sjálft er endurupptekið þó að það sé ekki gert fyrir Endurupptökudómi sem slíkum.