150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

39. mál
[16:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. framsögumanni fyrir framsögu hennar fyrir þessu þýðingarmikla máli sem ég kem hér upp til að lýsa stuðningi við. Þetta mál á sér þá forsögu að það var leitast við að grípa til ýmiss konar aðgerða í eftirleik hrunsins og auðvitað orkar allt tvímælis þá gert er. Þetta var mjög viðamikil aðgerð, stóð yfir um allnokkurt skeið, nokkurra ára tímabil, upphófst í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar, held ég að mér sé óhætt að segja. Það liggur fyrir allítarleg skýrsla frá Seðlabanka Íslands frá því í ágúst 2019 um þessi gjaldeyrisútboð bankans og það er út af fyrir sig gott svo langt sem það nær. En það verður auðvitað ekki unað við það að banki rannsaki sjálfan sig í þessu efni. Þess vegna er nauðsynlegt að beitt sé, eins og hér er lagt til, ákvæðum laga um rannsóknarnefndir þannig að liggja megi fyrir óháð og hlutlaus rannsókn á þessu máli.

Það eru auðvitað mjög stórar spurningar í þessu og ýmsar taldar upp í þingsályktunartillögunni. Ég gæti kannski bætt við fleiri spurningum, til að mynda um fyrirkomulag og þá á ég sérstaklega við skilmála, hvort þeir hafi falið í sér mismunun, sérstaklega gagnvart þeim sem náðu ekki fjárhæðarmörkum eða eitthvað af því tagi. En um leið vil ég, herra forseti, nefna það í þessari umræðu að það er ekki lengra síðan en í upphafi þessarar viku að svar barst frá fjármála- og efnahagsráðherra við skriflegri fyrirspurn frá þeim sem hér stendur um eftirlit með gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands. Ég leyfði mér að spyrja hæstv. ráðherra hvernig háttað hefði verið eftirliti með því að í þessu gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands væri fylgt ákvæðum skilmála bankans um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið, annars vegar varðandi uppruna fjármuna með vísan til reglna um eftirlit með peningaþvætti og hins vegar um að fjárfestir hafi verið raunverulegur eigandi fjármuna svo að viðskipti hafi verið framkvæmd fyrir eigin reikning fjárfestis en ekki fyrir hönd annars aðila. Þetta var önnur spurningin, þ.e. um þessa tvo þætti, eftirlit með að fylgt hafi verið reglum um peningaþvætti, og síðan var seinni spurningin um nöfn raunverulegra eigenda. Hún var þannig orðuð í fyrirspurn minni til skriflegs svars hvort ráðherra telji koma til greina að birta nöfn raunverulegra eigenda sem fengu samþykkt tilboð og nutu með þeim þeirra kjara sem buðust af hálfu Seðlabanka Íslands í umræddum gjaldeyrisviðskiptum.

Ég hafði tækifæri til þess í gær í óundirbúnum fyrirspurnatíma að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í þetta svar, sem að sjálfsögðu er þakkað fyrir. Ég staldraði sérstaklega við það í svari ráðherra þar sem er útskýrt að í formlegu tilliti hafi þátttaka í þessum útboðum verið í nafni innlends fjármálafyrirtækis — það voru ekki bein samskipti á milli þeirra sem tóku þátt í þessum útboðum, heldur hafði innlent fjármálafyrirtæki milligöngu í því sambandi — og réttarstaðan hafi því verið sú, eins og það er orðað í svari hæstv. ráðherra, að fjármálafyrirtækið var gagnaðili Seðlabankans í viðskiptum. Síðan segir að hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki hafi haft milligöngu um umsóknir fjárfesta um þátttöku í útboðum fjárfestingarleiðarinnar til Seðlabankans og bar m.a. að gæta þess að fyrirhuguð fjárfesting uppfyllti sett skilyrði. Þarna er þessi skylda lögð á hendur fjármálafyrirtækisins. Síðan segir: Fjármálafyrirtækjunum var m.a. skylt að kanna fjárfesta, þ.e. viðskiptamenn sína, með tilliti til laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og staðfesta það gagnvart Seðlabankanum.

Þetta er, herra forseti, það sem ég staldraði sérstaklega við í þessum hluta svarsins, að fjármálafyrirtæki hafi verið sett í eftirlitshlutverk að þessu leyti. Ég nefndi það í samtali sem ég átti við hæstv. ráðherra í gær í óundirbúnum fyrirspurnatíma að til að mynda er hvergi í þessu svari minnst á Fjármálaeftirlitið, það vekur sérstaka athygli mína sem og að fjármálafyrirtæki sé ætlað að hafa uppi eftirlitshlutverk. Þá ber að líta á það í því samhengi að hér er um mjög viðamikil viðskipti að ræða sem hlaupa samtals á því sem mælist í hundruðum milljarða. Að dómi ritstjórnar veftímaritsins Kjarnans, sem hér hefur verið vitnað til og ég vísaði reyndar til í gær, í frétt sem er dagsett 26. desember sl., á öðrum degi jóla, er það metið að samanlagður ávinningur þeirra sem fengu samþykkt tilboð hafi verið hátt í 50 milljarðar kr., kannski nálægt 49 milljörðum. Þess vegna vekur það spurningar þegar það kemur fram í skriflegu svari ráðherra að eftirlitið hafi verið með þessum hætti, án þess að neinum sé ætlað neitt misjafnt af einu eða neinu tagi, að þessi skylda hafi verið lögð á herðar fjármálafyrirtækis.

Hitt atriðið sem ég staldraði við var það sem fram kemur í svari við seinni spurningu þar sem spurt er hvort ráðherra telji koma til greina að birta nöfn raunverulegra eigenda sem fengu samþykkt tilboð og nutu með þeim hætti þeirra kjara sem buðust af hálfu Seðlabanka Íslands í umræddum gjaldeyrisviðskiptum og sem metið er að ávinningurinn hafi verið upp á 49 milljarða kr. Þá kemur það fram að ekki sé heimilt samkvæmt gildandi lögum að birta upplýsingar sem spurt er um vegna ákvæðis um þagnarskyldu í 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Í svarinu kemur sömuleiðis fram að um þetta hafi verið úrskurðað af úrskurðarnefnd um upplýsingamál og vísað til úrskurðar nr. 774/2019 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að listi yfir nöfn einstaklinga og lögaðila, ásamt fjárhæðum sem hver aðili, eins og það er orðað, flutti til landsins eftir fjárfestingarleið Seðlabankans, félli undir þagnarskylduákvæði bankans.

Ég leyfði mér að spyrja hæstv. ráðherra hvert viðhorf hans væri til þess að þannig hafi verið búið um hnúta að ekki reyndist fært, með vísan til laga og úrskurðar, að birta það hverjir raunverulega fengu þennan ávinning, hverjir fengu notið þeirra vildarkjara sem Seðlabankinn bauð þarna upp á. Ég held að ég fari rétt með að ráðherra lét þau orð falla að hann teldi þetta ekki heppilegt. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég tek undir með hæstv. ráðherra að því leytinu til að þetta er náttúrlega ekki heppilegt og mætti kannski orða það með jafnvel sterkari hætti, að það væri varla viðunandi og varla við það búandi að hér væru af hálfu opinberrar stofnunar fluttir slíkir fjármunir til aðila að hlaupi á hátt í 50 milljörðum og ekki sé upplýst um það hverjir það eru sem fengu notið þessa ávinnings og vildarkjara í boði Seðlabanka Íslands.