150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo virðist sem hv. þingmaður hafi ekki alveg verið að fylgjast með í umræðunni fyrir áramót þegar fjallað var um kirkjujarðasamkomulagið og verðmæti þess, sem mjög vel var farið yfir í áliti kirkjueignanefndar frá 1992. (Gripið fram í.) Þar var mjög vel farið yfir að verðmæti þeirra eigna sem kirkjan átti þá sannanlega — mörg ár höfðu farið í rannsóknir á því hvaða eignir kirkjurnar áttu nákvæmlega á þeim tíma — væri um milljarður og það var reiknað niður í krónu á þeim tíma. Uppreiknað eru það um 3 milljarðar árið 2018, ekki mikið meira í dag. Það er umfangið sem við erum að tala um hér. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann sömu spurningar og ég lagði hér áðan fyrir annan þingmann: Á sama tíma og ríkið er að borga óendanlega mikið fyrir þessar eignir, sem verðmetast upp á um 3 milljarða og er að borga meira en 3 milljarða á ári fyrir eignir sem á heildina litið eru 3 milljarða virði, á sama tíma og ríkið er að borga óendanlega mikla peninga fyrir þær jarðir, hvernig getur það staðist að við séum að gefa kirkjunni til baka? Af hverju erum við ekki að rukka óendanlega háa peningaupphæð til baka fyrir að gefa jarðirnar aftur til kirkjunnar? Eigum við kannski seinna að gera annan samning um óendanlega mikinn pening til að fá kirkjujarðirnar aftur eða hvað?