150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð bara að segja að ég myndi almennt talað ekki lýsa mig sammála neinu sem hv. þingmaður heldur fram þegar kemur að lagatúlkunum eða öðrum slíkum þáttum. Ég myndi líta í aðrar áttir ef ég væri í einhverjum vafa um atriði af þessu tagi. Staðreyndin er sú að við erum með stjórnarskrá sem var samþykkt af öllum þorra manna 1944 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum þar með ákvæði um þjóðkirkjuna og við erum þar með jafnræðisákvæði og ég er hlynntur þeim ákvæðum báðum tveimur og stend að baki þeim eins og ég álít að þorri landsmanna geri. Og auðvitað er hv. þingmanni frjálst að beita sér hér á Alþingi og annars staðar fyrir breytingum á stjórnarskránni, sérhverjum manni er heimilt að gera það, og hann getur safnað liði en ég verð að segja að fleiri gerðust vígamenn en ég ætlaði þegar ég leit yfir lista þeirra sem eru meðflutningsmenn á þessu máli. Hann verður bara að arka að auðnu með það, hv. þingmaður, og sjá hvernig gengur. En ég og mínir félagar munum áfram standa vörð um þessi ákvæði stjórnarskrárinnar og við erum þess fullmeðvitaðir að það liggja fyrir dómar Hæstaréttar, dómar Mannréttindadómstólsins um að 65. gr. um jafnræðið haggar hvergi 62. gr. um þjóðkirkjuna.