150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

utanvegaakstur og verndun lands á hálendi Íslands.

59. mál
[13:53]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Já, það er blessað hálendið, það er orðið mikið um umræður um það í samfélaginu og hér á Alþingi líka. Sem hálendisfari ætla ég aðeins að leggja orð í belg. Við erum að ræða utanvegaakstur á hálendinu sem hefur verið vandamál í marga áratugi. Ég fór inn á hálendið fyrst milli 1960 og1970 og hef séð hvernig þetta hefur þróast. Fljótlega upp úr síðustu heimsstyrjöld, þegar fjórhjóladrifnir bílar komu hingað, varð til alveg gríðarlegt net af vegum og slóðum um allt hálendið smám saman. Menn bjuggu þetta einfaldlega til eftir hentugleikum, svo hefur það breyst núna með skipulagsvaldi sveitarfélaga. Búið er að kortleggja þessa slóða eða vegi mikið til og þá sést netið og það er alveg sjálfsagt mál að minnka það eins og forsvaranlegt er, eins og hægt er á vissan hátt, vegna þess að auðvitað þarf um leið að halda leiðum opnum svo að hálendið nýtist bæði til nytja og ferðalaga.

Mig langar að benda á þrenns konar utanvegaakstur sem hefur orðið til. Í fyrsta lagi er það út frá viðurkenndum slóðum og vegum stundum með vilja, stundum eru menn með klaufaskap, kannski oft og tíðum útlendingar, en það er alla vega utanvegaakstur út frá þeim slóðum og vegum sem eru viðurkenndir. Í öðru lagi þegar snjóhula er á. Það er jú leyfilegt að vera með sérútbúna jeppa og aka á snjó utan vega en svo gerist það bæði á vorin og haustin, annaðhvort þegar snjór er nýr eins og á haustin eða orðinn slitróttur eins og á vorin, að töluvert verður um utanvegaakstur ýmist af óvarkárni eða með vilja; menn snúa ekki við þannig að þar verða til skemmdir. Í þriðja lagi er enn verið að stelast, þannig myndi ég orða það, til að leggja nýja vegaslóða sérstaklega, ég vil ekki kalla þetta vegi. Það gerist m.a. með bílaakstri. Það er bara ekið nógu oft ofan í einhverja fjöruna og smám saman er þar orðinn slóði og hann er notaður aftur og aftur og honum er ekki lokað. Það eru fjórhjól sem hafa að einhverju leyti búið til slóða. Ég nefni Sveifluháls við Kleifarvatn þar sem er orðið gríðarlega mikið um merki eftir ökutæki uppi á fjallinu. Síðast en ekki síst eru það torfærumótorhjól. Það er allstór hópur og ég er ekki að draga hann allan upp heldur einstaka þar innan fyrir sem hafa stundað það að aka t.d. kindagötur eða kindaslóða, smám saman verða til djúpar rásir, það rennur úr þeim o.s.frv. og það er farið aftur og aftur og þannig verður til ökuslóði þótt hann sé ekki bílfær.

Ég nefni þetta hér vegna þess að það er mikilvægt að taka á öllum þessum þáttum utanvegaaksturs þegar að þessu kemur, vonandi. Ég tel sem einn meðflutningsmanna að þessi þingsályktunartillaga sé mjög þörf.