150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

innviðauppbygging og markaðssetning hafnarinnar í Þorlákshöfn.

61. mál
[14:09]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Skemmtiferðaskip hafa komið í Þorlákshöfn og átt þar viðdvöl yfir hásumarið. Eins og kemur fram í greinargerðinni er stutt til fallegustu ferðamannastaða landsins frá Þorlákshöfn. Það er áhugavert fyrir slíka höfn að ná til skemmtiferðaskipa en það myndi væntanlega aðeins virka tímabundið eins og staðan er akkúrat núna. Miðað við þær aðstæður sem eru í höfninni núna hugsa ég að ferjusiglingar þangað allt árið væru ekki góður kostur með marga farþega. Stórt farþegaskip fullt af farþegum yrði væntanlega í erfiðleikum með að sigla inn fyrir í aðstæðum eins og hafa verið undanfarna daga. Auðvitað hafa Þorlákshafnarbúar og hafnaryfirvöld í Þorlákshöfn mikinn metnað til að búa höfnina þannig að hún geti tekið á móti skemmtiferðaskipum, enda er það bara sama aðstaða og þarf fyrir þau skip sem nú þegar sigla þangað. Það myndi fjölga tækifærum þessarar hafnar en mikilvægast er að fara í þá uppbyggingu sem er komin af stað og núna megum við alls ekki draga lappirnar þannig að aðstaðan verði langt á eftir þeirri þörf sem er fyrir og er að myndast með tilkomu fleiri leiða og leiðarkerfa sem Smyril Line er að byggja upp. Smyril Line á fimm skip og þrjú þeirra sigla til Íslands.